Innlent

„Hér á Íslandi þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir formanni Vinstri grænna var tíðrætt um fátækt og misskiptingu í ræðu sinni í kvöld.
Katrín Jakobsdóttir formanni Vinstri grænna var tíðrætt um fátækt og misskiptingu í ræðu sinni í kvöld. Vísir/Ernir

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna hóf ræðu sína á Alþingi í kvöld á því að ræða að rök megi færa fyrir því að ríkidæmi okkar sé tungumálið og náttúruauðlindirnar.

Umræður voru um stefnuræðu forsætisráðherra og sagði Katrín meðal annars að hún hafi áhyggjur af því að þrátt fyrir efnahagslegan uppgang vanti dálítið upp á sameiginlegan skilning á því hvað felst í samfélagi.

„Ég hef áhyggjur að því að of margir séu beðnir að bíða eftir réttlætinu.“

Sagði hún að stjórnmálamenn þurfi að vera reiðurbúnir til þess að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þurfi til, annars væri hætta á að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni.
 
Draga þarf úr misskiptingu
Katrín sagði að hér á landi þurfi stjórnvöld sem séu reiðubúin til þess að bregðast við því að ríkustu tíu prósentin á Íslandi eigi þrjá fjórðu alls auðs í landinu.

„Hér á Íslandi þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt. Um það hefur ekki verið eining hér á Alþingi þó að sumir stjórnmálamenn tali eins og hér séu allir sammála um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. En í raun höfum við ekki verið sammála um að skattkerfið eigi að tryggja jöfnuð.“

Katrín sagði að vaxandi misskipting auðsins spretti beinlínis af pólitískum ákvörðunum sem hingað til hafi verið þær að ekki megi skattleggja auðinn, ekki megi skattleggja fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk og ekki megi setja sérstakt hátekjuþrep á verulega háar tekjur.

„Eins og þær sem skila sér í kaupaukagreiðslum sem margir þingmenn flytja vandlætingarræður um en heykjast svo á að taka á í gegnum skattkerfið.“

Hún sagði að það sama megi segja um bótakerfin, vaxtabætur og barnabætur sem nýtist æ færri.

„Á bak við það eru líka pólitískar ákvarðanir sem hafa ekki miðað að því að auka jöfnuð og draga úr misskiptingu, heldur þvert á móti. Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að taka pólitískar ákvarðanir til að útrýma fátækt og draga um leið úr misskiptingu.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira