Enski boltinn

Kane „eini maðurinn sem getur náð markameti Shearer“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Harry Kane kom boltanum tvisvar framhjá markmanni Dortmund í gær.
Harry Kane kom boltanum tvisvar framhjá markmanni Dortmund í gær. Vísir/Getty
Harry Kane, framherji Tottenham, er eini leikmaðurinn sem getur náð markameti Alan Shearer í ensku úrvalsdeildinni að mati Craig Bellamy. Hann sér mikil líkindi milli Real Madrid goðsagnarinnar Raúl og Kane.

Bellamy var sérfræðingur í sjónvarpsþætti Sky eftir leik Tottenham og Dortmund í Meistaradeildinni í gær. Kane skoraði tvö síðustu tvö mörk Tottenham í 3-1 sigri í H-riðli Meistaradeildarinnar.

„Þegar Kane steig fyrst fram á sjónarsviðið minnti hann mig mikið á Raúl,“ sagði Bellamy á Sky í gær. „Hann er ekkert sérstaklega snöggur en með mjög sniðugar hreyfingar. Hann veit hvar hann á að vera og getur skapað sér pláss úr engu.“

Hinn 24 ára gamli Kane er á sínu fimmta tímabili með Tottenham í úrvalsdeildinni. Hefur hann alls spilað 120 leiki og skorað í þeim 80 mörk. Þá varð hann markakóngur síðasta tímabils þegar hann skoraði 29 mörk í 31 leik.

„Ef Kane heldur þessu áfram er hann eini maðurinn sem getur náð markameti Alan Shearer í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Bellamy.

Þrátt fyrir ungan aldur á Kane þó nokkuð langt í land. Alan Shearer negldi boltanum alls 260 sinnum í netið á úrvalsdeildarferli sínum og er langmarkahæsti leikmaður í sögu deildarinnar. Næsti maður á listanum er Wayne Rooney með 200 mörk en ólíklegt verður að teljast að hann nái metinu áður en hann leggur skóna á hilluna.

Sjá má mörkin úr leik Tottenham og Dortmund hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×