Erlent

Norska lögreglan rannsakar mál Therese á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Therese var níu ára gömul þegar hún hvarf í hverfinu Fjell í Drammen í júlí árið 1988.
Therese var níu ára gömul þegar hún hvarf í hverfinu Fjell í Drammen í júlí árið 1988.
Deild norsku lögreglunnar sem rannsakar gömul, óupplýst mál hefur ákveðið að taka mál stúlkunnar Therese Johannessen, sem hvarf sporlaust fyrir 29 árum, til frekari rannsóknar. Lögmaður fjölskyldu Therese segist mjög ánægður með fréttirnar.

Therese var níu ára gömul þegar hún hvarf í hverfinu Fjell í Drammen í byrjun júlímánaðar árið 1988. „Þetta þýðir að þeir hafa ekki gefist upp. Ég er ánægður með það. Það er frábært,“ segir Fridtjof Feydt, lögmaður fjölskyldunnar í samtali við ABC Nyheter.

Rannsókn á hvarfi Therese var á sínum tíma dýrasta og umfangsmesta sakamálarannsókn sögunnar í Noregi. Enn er óljóst hver örlög stúlkunnar urðu.

Christine Fossen, lögreglustjóri Suðausturumdæmis norsku lögreglunnar, hefur nú staðfest að ákveðið hafi verið að færa málið til deildar lögreglunnar sem rannsakar gömul óupplýst mál.

Inger-Lise Johannessen, móðir Therese, greindi frá því í bók árið 2013 að hún hafi mesta trú á að dóttir sín hafi verið flutt til Pakistans árið 1988 og að hún væri þar enn á lífi.

Viðurkenndi að hafa banað Therese

Í lok tíunda áratugarins hélt sænski raðmorðinginn Thomas Quick því fram að það hafi verið hann sem rændi og drap Therese á sínum tíma. Hann var svo dæmdur fyrir morð á Therese í héraðsdómi í Hedemora í Svíþjóð þann 2. júní 1998.

Í frétt NRK segir að engar sannanir hafi fundist fyrir því að Quick hafi drepið Therese Johannesen og dró hann síðar játningu sína til baka í tengslum við upptökur á sjónvarpsþætti. Saksóknarar í Svíþjóð létu málið á hendur Quick niður falla í mars 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×