Enski boltinn

Fyrrum landsliðsþjálfari Englands viðriðinn kynferðisbrot á drengjum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Graham Taylor stýrði Aston Villa frá 1987-90 og aftur 2002-03
Graham Taylor stýrði Aston Villa frá 1987-90 og aftur 2002-03 Vísir/getty
Fyrrum landsliðsþjálfari Englands, Graham Taylor, var viðriðinn kynferðisbrotamál innan Aston Villa á níunda áratug síðustu aldar samkvæmt yfirstandandi rannsókn á kynferðisbrotum innan fótboltans í Englandi. Taylor á að hafa þagað yfir því að kynferðisbrotamaður hafi unnið hjá félaginu og misnotað þar unga drengi.

Ted Langford var dæmdur árið 2007 fyrir kynferðisbrot á fjórum ungum drengjum á árunum 1976-89. Hann fékk þriggja ára fangelsisdóm og lést síðan árið 2012. Taylor er sagður hafa talað Tony Brien, eitt fórnarlamba Langford, af því að stíga fram og segja frá misnotkun sinni.

Brien segir Taylor hafa hringt í hann og sagt honum, að gerði hann ásakanir sínar opinberar þá kæmist það í blöðinn og hann myndi þurfa að líða níð frá áhorfendum á pöllunum. Brien var þá nýbúinn að koma sér í aðallið Leicester City og segir hann hafi tekið orðum Taylor sem skilaboð um að hann gæti ekki ráðið við umræðuna.

Langford var þjálfari Dunlop Terriers, sem er félag sem þróaði unga leikmenn (e. feeder club) fyrir Leicester City, og svo seinna Aston Villa.

Brien er í dag 48 ára og spilaði fyrir Leicester, Chesterfield, Rotherham United, West Bromwich Albion og Hull City á 11 ára ferli sínum sem atvinnumaður. Hann var ekki einn af þeim fjórum drengjum sem um ræddi þegar Langford var dæmdur. Hann fór til lögreglunnar í desember fyrir tæpu ári, og komst þá að því að Langford hefði látist.

Kæra hans var send áfram til enska knattspyrnusambandsins og þar tekin fyrir. Í viðtali við David Gregson, starfsmann FA, sagði Brein að í keppnisferðalögum Dunlop Terriers til Svíþjóðar og Danmerkur hafi Langford deilt kojum með drengjunum. Margir drengjanna hafi svo skartað sogblettum og öðrum ummerkjum í æfingaleikjunum.

Þegar Brien var 12 ára á Langford að hafa sagt við hann að ef hann ætlaði sér að verða stórstjarna þá þyrfti hann að sýna læknum félagsins að hann væri með sérstakt gen, og aðeins væri hægt að finna þetta gen í sæði. Langford hafi síðan farið með hann á golfvöll í Birmingham og misnotað hann í bíl sínum.

Bréf frá Dave Richardson hjá Aston Villa árið 1989 þar sem minnst er á T. LangfordMynd/BBC
Dave Richardson, fyrrum aðstoðarþjálfari Aston Villa, var þjálfari yngri flokka Leicester frá 1980-87, á þeim tíma sem Brien var þar. Þegar Richardson hætti hjá Leicester og fór til Aston Villa fylgdi Langford, sem og tengslin við Dunlop Terriers, með honum. Þá ákvað Brien að stíga fram og segja eitthvað við Richardson, því hann vildi koma í veg fyrir að Langford gæti haldið áfram og misnotað fleiri drengi.

Á Richardson þá að hafa sagt við Brien: „Þú ert góður leikmaður. Sópaðu þessu undir teppið, sonur sæll, gleymdu þessu.“ Einnig á Taylor að hafa hringt í Brien og sagt svipaða hluti. Brien sagði í vitnisburði sínum að þeir hafi talað hann af því að stíga fram og aldrei gefið honum færi á að fara til lögreglunnar.

„Við litum upp til Dave Richardson. Hann var föðurímynd. Ég hef enn mikið álit á honum, fyrir hvað hann gerði fyrir mig þegar ég var ungur. Ég taldi hann frábæran þjálfara. En þegar ég hélt ég væri að gera það rétta og tilkynna þetta til einhvers sem ég treysti þá olli hann mér vonbrigðum og ég vissi ekki hvað ég ætti að gera,“ sagði Brien í vitnisburði sínum.

Þegar málið kom fyrst upp í janúar á þessu ári var Richardson í viðtali við BBC og sagðist muna eftir því að Brien hafi sagt honum frá Langford. Hann sagðist hafa fengið fleiri tilkynningar og því hafið rannsókn á málinu og í kjölfarið rekið Langford. Hann sagðist hafa gert hvað sem hann gat til þess að hjálpa leikmönnum sínum og það að hann hafi viljað sópa þessu undir teppið sé kolrangt.

Það var árið 1987 sem Brien fór til Richardson með ásakanir sínar um Langford. Hann hélt samt áfram að fá launagreiðslur frá Aston Villa allt fram til 1989. Hann hélt svo áfram að vinna með börnum og unglingum í Birmingham í einhver ár, þar til hann viðurkenndi að lokum sekt sína árið 2007.

„Ég tók ásökununum mjög alvarlega og byrjaði rannsókn. Hún leiddi mig að foreldrum tveggja ungra drengja hjá Aston Villa, sem hvor um sig sögðu mér að synir þeirra hefðu verið misnotaðir af Ted Langford. Ég spurði hvort þau ætluðu með ásakanir sínar til lögreglunnar, eða hvort ég ætti að gera það fyrir þau. Eftir að hafa rætt málin sín á milli ákváðu bæði foreldrapörin að þau vildu ekki fara með málið til lögreglunnar,“ sagði Richardson.

Í staðinn segist Richardson hafa farið með málið til Taylor, sem þá var knattspyrnustjóri Villa, sem og Doug Ellis og Steve Stride, sem voru stjórnarmenn félagsins, og lagt til að Langford yrðir rekinn. Þeir tóku undir það og var starfssamningi Langford við félagið rift.

Aton Villa er eitt af elstu félögum Englands, stofnað 1874vísir/getty
Taylor var landsliðsþjálfari Englands frá 1990-93. Árangur hans með landsliðinu var ekki markverður. England komst ekki upp úr riðli sínum á EM 1992 þar sem hann var meðal annars harðlega gagnrýndur fyrir að skipta Gary Lineker af velli í lokaleik riðilsins sem reyndist síðasti leikur Lineker með landsliðinu. Hann var að eltast við markamet Bobby Charlton en hann vantaði eitt mark upp á að jafna það.

Þá mistókst Taylor að koma Englandi á heimsmeistaramótið 1994 en Norðmenn og Hollendingar komust upp úr riðli Englands. Kvikmyndin Mike Basset England Manager, sem margir kannast við, er ádeila á ár Taylor í starfi landsliðsþjálfara. Byggir hún á heimildarmyndinni Do I not like that þar sem sjónvarpsfólk fékk að fylgja enska landsliðinu eftir í undankeppni HM 1994.

Taylor fékk orðu drottningarinnar árið 2001 ásamt því að stúka á heimavelli Watford heitir eftir honum. Hann lést í janúar á þessu ári í kjölfar hjartaáfalls.

Dino Nocivelli, lögmaður með sérhæfingu í misnotkunarmálum, segir að Aston Villa hafi átt að gera betur í að vernda þau börn sem voru í umsjá félagsins. Félagið er nú undir rannsókn vegna aðkomu þess og forráðamanna þess í málinu, hversu mikið félagið hafi vitað og hversu miklu hafi verið sópað undir teppið. Talsmenn félagsins segjast ekki geta tjáð sig um málið þar sem rannsókn er yfirstandandi. Í yfirlýsingu frá félaginu sagði að það sé að aðstoða knattspyrnusambandið við rannsókn sína af fullri getu. Jafnframt sé öryggi leikmanna og starfsmanna félagsins í háum forgangi.

Leicester City hefur einnig gefið frá sér yfirlýsingu þar sem félagið segist ekki hafa vitað af neinum ásökunum, núverandi eða frá fyrri tímum, á hendur starfsfólks þess. Það muni hins vegar rannsaka það til hlýtar, komi upp upplýsingar um slíkt.


Tengdar fréttir

Graham Taylor er látinn

Fyrrverandi þjálfari enska landsliðsins er látinn 72 ára að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×