Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Fjölnir 34-24 | Ójafnt á Selfossi

Gabríel Sighvatsson​ og Magnús Guðmundsson skrifar
Teitur Örn Einarsson skoraði 13 mörk.
Teitur Örn Einarsson skoraði 13 mörk. Vísir/Eyþór
Teitur Örn Einarsson skoraði 13 mörk þegar Selfoss rúllaði yfir Fjölni, 34-24, á heimavelli í 2. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Leikurinn byrjaði brösuglega fyrir nýliðana úr Grafarvoginum þegar þeir mættu Selfoss í íþróttahöllinni við Vallarskóla.

Traust vörn, frábær markvarsla og hörmulegur sóknarleikur, varð til þess að það tók Fjölni 16 mínútur að skora fyrsta markið sitt og þá var staðan 6-1. Fjölnismenn náðu aldrei neinu flugi eftir þetta.

Besti kaflinn þeirra kom á næsta korteri og staðan í hálfleik 14-11 fyrir heimamönnum.

Maður bjóst við dýrvitlausum Fjölnismönnum í seinni hálfleik en svo var ekki raunin. Fljótlega tóku Selfyssingar öll völd á vellinum og eftir það sáu Fjölnismenn ekki til sólar.

Fjölnir fór aftur í sama farið og mest varð munurinn 12 mörk. Leikurinn endaði með 10 marka mun 34-24.

Af hverju vann Selfoss?

Frábær varnarleikur lagði grunnin að sigri í dag. Eitt mark á 18 mínútum sá til þess að heimamenn fóru með góða forystu inn í hálfleikinn og í seinni hálfleik settu þeir í næsta gír og kláruðu dæmið.

Þessir stóðu upp úr:

Sölvi Ólafsson, í marki Selfoss átti frábæran leik og varði t.a.m. allt sem á hann kom fyrsta korterið, auk þess sem vörnin stóð pliktina. Hann átti 17 varin skot í heildina og var með 45 prósent markvörslu.

Teitur Örn Einarsson var drjúgur á vítapunktinum og skoraði alls 13 mörk fyrir Selfoss en markahæstur í liði Fjölnis var Brynjar Loftsson.

Hvað gekk illa?

Fjölnir skoraði ekki mark fyrstu 15 mínútur leiks. Sóknarleikurinn var hugmyndasnauður og vantaði meiri kraft. Þó tóskt sóknarmönnum Selfoss oft að slepppa ansi auðveldlega í gegn á tímum.

Það hefði alls ekki sakað fyrir Fjölnismenn að verja nokkur skot í fyrri hálfleik en allur leikur Fjölnis var ekki upp á marga fiska.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Selfoss er gegn Fram á meðan Fjölnir tekur á móti ríkjandi meisturum í Val.

Patrekur: Þetta er algjör gryfja

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, gat verið sáttur að leikslokum.

„Flott liðsheild hjá okkur, við byrjuðum rosalega sterkt varnarlega þar sen Fjölnir átti lítið af svörum og Sölvi frábær í markinu. Þeir nálguðust okkur aðeins í lok fyrri hálfleiks en í byrjun seinni hálfleiks vorum við mjög þéttir, spiluðum agaðir í sókninni og unnum að lokum sanngjarnt,“ sagði Patrekur eftir leik.

„Mér finnst Fjölnis liðið gott, við erum búnir að spila tvisvar við núna að undanförnu. Arnar er klókur þjálfari og ég vissi það en við náðum að stoppa þá mjög vel og halda þeirra helstu skyttu niðri.“

Þá hrósaði Patrekur áhorfendum og sagði að heimavöllurinn hjálpaði heilmikið.

„Það var líka ótrúlega góð tilfinnig að spila á heimavelli, þetta er algjör gryfja, það er frábær stemning hérna og gaman að hafa fólkið með sér.“

Tíu marka munur var niðustaðan að leik loknum og var Patrekur nokkuð hissa á því.

„Maður veit aldrei, í handbolta getur allt gerst og þú getur skorað fullt af mörkum. Ég hafði trú á að við myndum sigra en vissi að við þyrftum að hafa fyrir því. Að við skyldum vinna með 10 er bara gott en nú er það bara næsti leikur á móti Fram og höldum áfram að æfa vel. Það er alltaf pirrandi þegar maður er ekki búinn að landa stigum en núna erum við búnir að gera það og það er frábært,“ sagði Patrekur að lokum.

Arnar: Mættum ekki til leiks

„Tja tap... við vorum bara rassskelltir!“ voru fyrstu orð Arnars Gunnarssonar, þjálfara Fjölnis, eftir stórtap gegn Selfossi.

„Við mættum ekki til leiks en endum fyrri hálfleik vel, ég hélt við myndum taka það með okkur í seinni hálfleik en svo var aldeilis ekki. Þeir voru bara betri en við á öllum sviðum.“

Sóknarleikur Fjölnis var ekki til fyrirmyndar í upphafi leiks.

„Þegar þú skorar eitt mark á fyrstu 18 mínútunum er það ljóst að hlutirnir eru ekki að ganga upp. Við þurfum bara að skoða allverulega hvað, hver og einn, hvað við erum að gera vitlaust og hvað þarf að laga,“ sagði Arnar.

„Líkt og í síðasta leik þá mættum við bara ekki til leiks. Síðast þegar við mættum þessu liði í alvöru leik, þá gerðust hlutir sem ansi margir urðu svekktir yfir, þannig mér finnst það eigi ekki að þurfa að mótivera menn fyrir leik á móti Selfoss,“ sagði Arnar sem hefur trú á að sínir menn fara að hala inn stigum á næstunni.

„Við sækjumst klárlega eftir því að enda ofar en tvö neðstu sætin, rétt eins og öll lið, en hvort eitthvað annað bíði okkar verður að koma í ljós. Með svona frammistöðu þá erum við ekki að fara að gera mikið en ég hef trú á að við snúum þessu við.“

Teitur Örn: Okkar leikur gekk fullkomlega upp

Teitur Örn Einarsson gat líka verið ánægður eftir leik

„Jú, þetta var bara flott, við mættum þeim af krafti og vorum búnir að undirbúa okkur vel. Við þekkjum Fjölnis liðið vel eftir að hafa mætt þeim síðustu árin og þetta endaði okkar megin í dag.“

Selfoss var með mikla yfirburði nánast allan leikinn og sigraði að lokum með 10 mörkum.

„Við bjuggumst við hörkuleik í 60 mínútur og vorum búnir að undirbúa okkur fyrir það. Okkar leikur gekk bara fullkomlega upp og þá endaði þetta svona. Við lögðum mikið upp úr hvernig við ætluðum að spila varnarlega og það gekk upp. Það er rosa gott að vera komnir með stig á töfluna,“ sagði Teitur sem er mjög bjartsýnn á framhaldið eftir fyrsta sigurinn.

„Bara mjög vel, við erum gríðarlega vel settir og samanheldnir og mér líst bara vel á þetta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira