Enski boltinn

Komst ekki í liðið á sjöunda áratugnum en er nú sestur í stjórastólinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson á blaðamannfundinum.
Roy Hodgson á blaðamannfundinum. Vísir/Getty
Roy Hodgson, nýr knattspyrnustjóri Crystal Palace, hitti blaðamenn í dag en hann stýrir liðinu í fyrsta sinn í ensku úrvalsdeildinni á móti Southampton á heimavelli á morgun.

Crystal Palace hefur hvorki fengið stig né skorað mark í fyrstu fjórum umferðum ensku úrvalsdeildarinnar og Hodgson tók við af Hollendingnum Frank de Boer sem var rekinn eftir aðeins 77 daga í starfi.

Roy Hodgson lítur svo á að þetta verði gott tímabil ef hann nær að halda Crystal Palace uppi í ensku úrvalsdeildinni en liðið situr nú í botnsætinu.

„Þetta verður gott tímabil ef ég næ að halda Crystal Palace uppi og stuðningsmennirnir verða ánægðir,“ sagði hinn sjötugi Roy Hodgson.  BBC segir frá.

Hodgson hefur verið atvinnulaus síðan að hann sagði starfi sínu lausu efir 2-1 tap enska landsliðsins á móti Íslandi í sextán liða úrslitum EM í Frakklandi. Leikurinn á móti Southampton í hádeginu á morgun verður því fyrsti leikur hans frá kvöldinu ógleymanlega í Nice.

Það sem gerir þessa ráðningu sérstaka eru gömul tengsl Roy Hodgson við Crystal Palace en það var einmitt þar sem hann steig sín fyrstu skref á knattspyrnuferlinum.

Roy Hodgson er frá Croydon, hverfi í suður London þar sem Palace hefur aðsetur og hann æfði með unglingaliði Crystal Palace á sjöunda áratugnum. Hodgson komst hinsvegar ekki í aðalliði.

„Það er kafli í bók lífsins að opnast fyrir mig og ég hlakka til. Ég vonast til að geta glatt stuðningsfólk Crystal Palace. Það væri sérstakt fyrir mig því ég er strákur frá Croydon og var hérna þangað til að ég var 24 ára gamall,“ sagði Roy Hodgson.

„Nú er þetta bara 34 leikja tímabil. Við byrjuðum illa og drógumst eftirá með því að fá ekkert stig í fyrstu fjórum leikjunum. Við erum hinsvegar að horfa á maí en ekki lok september. Deildirnar vinnast ekki og liðin falla ekki í september,“ sagði Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×