Innlent

„Siðblindur dýraníðingur“ sagður ganga laus í Hveragerði

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Börn að leik fundu sundurklippta ketti í Hveragerði um helgina.
Börn að leik fundu sundurklippta ketti í Hveragerði um helgina. Bergljót Davíðsdóttir

 „Mér finnst þetta það alvarlegt mál að ég skil ekki að þetta skuli vera þaggað niður hérna í Hveragerði,“ segir Þóra Sif Sigurðardóttir íbúi í Hveragerði.

„Ég á ekki kisur en er dýravinur og mér finnst ekki í lagi að það séu að hverfa kisur hérna.“

Þóra Sif segir að á laugardag hafi verið umræða um að kisur hverfi í Hveragerði, jafnvel úr garðinum hjá fólki. Íbúum bæjarins finnst þetta mikið samfélagsmein. Ungur drengur setti þar inn athugasemd um að hann hafi fundið tvo dauða ketti við Baulu við Hamarinn þegar hann hafi verið að leik með öðrum strákum.

„Hann er sennilega ekki nema svona 12 ára gamall og hann skrifar að hann hafi séð tvo sundurskorna ketti. Það var seint á laugardagskvöldi sem hann setti þetta inn,“ segir Þóra Sif. 

„Hvaða áhrif hefur þetta á ungan strák að koma að sundurskornum ketti? Ég veit að þessi strákur sýndi mikið hugrekki að láta vita af þessu.“

„Þessi siðblindi einstaklingur hlýtur því að vera inni á Facebook síðu íbúa í Hveragerði. Þetta er einhver innanbæjarmaður svo það hlýtur einhver að vita eitthvað.“

Stóralvarlegt mál

Þóra Sif er ósátt við að fólk sýni umræðum um þetta ekki meiri viðbrögð. Hún segir að Hveragerði sé mjög vinalegur bær og þar búi yndislegt fólk en það sé þöggun í þessu máli.
Það er eins og það megi bara tala um hvað þetta sé fallegur og góður blómabær. Það er einhver þöggun því þetta er alltaf að koma upp aftur og aftur samkvæmt þeim sem eiga ketti hérna.Þetta er ekki bara þessi sem er að eitra með frostlegi heldur er líka verið að taka kisur, þetta er bara stóralvarlegt mál.
Í Facebook umræðum í hópum bæjarbúa á Facebook er meðal annars er rætt um að vitað sé til þess að að minnsta kosti einn einstaklingur í bænum eigi fellibúr. Slíkt búr væri hægt að nota til þess að ná dýrum og flytja á milli staða.

„Mér finnst þetta vera siðblindur dýraníðingur sem er með eitthvað meira á samviskunni, sá sem getur skorið og pyntað dýr getur gert eitthvað meira af sér,“ segir Þóra Sif.

„Það er svo skrítið að þetta komi upp aftur og aftur án þess að það sé gert eitthvað í því. Ég á sjálf ekki kött en ég myndi eflaust fara á límingunum, fólki á ekki að vera alveg sama. Lögreglan segir okkur að hún líti þetta mjög alvarlegum augum og ætli að rannsaka þetta. Það þarf samt að vera samvinna bæjarbúa að segja frá.“

Kötturinn sem drengurinn fann á yfirgefnum sveitabæ Bergljót Davíðsdóttir

Þarf að hafa áhyggjur af börnum líka

Þóra Sif telur að þegar þurfti að lóga ketti bæjarstjórans í Hveragerði á dögunum hafi hugsanlega verið um eitrun að ræða. „Kettir sturlast ekkert við flugelda. Fólk hlýtur að fara að leggja saman öll þessi dæmi sem eru að koma upp.“

„Ég myndi segja að ef það gengur laus dýraníðingur þá myndi ég líka hafa áhyggjur af börnunum mínum. Sá sem er fær um að pynta dýr hann stoppar ekki þar.“ Þóra Sif segir að það sé líka hætta á því að börn finni það sem er notað til þess að eitra fyrir köttum með frostlegi.

„Börnin geta farið í þetta líka. Þegar svona mál koma upp þarf að hafa áhyggjur af frjálsum dýrum og börnunum sem hlaupa hér um frjáls.“

Þóra Sif segir að það sé hagur allra íbúa að það verði vitundarvakning í Hveragerði og svona mál séu rædd.

„Þetta má ekki bara alltaf þagga niður þegar þetta kemur upp.“

Bergljót Davíðsdóttir segir þöggun vera um kattarhvörfin í Hveragerði Vísir

Miklir þöggunartilburðir

Köttur Bergljótar Davíðsdóttur hvarf í Hveragerði á þriðjudaginn í síðustu viku og óttast hún að hann finnist aldrei. Bergljót hefur verið blaðamaður í 30 ár, er mikill dýravinur og hefur einnig ræktað hunda. Bergljót óttast að kötturinn sinn hafi verið tekinn.

„Mín kisa var ársgamall geldur fress sem á hér systur úr sama goti. Þau eru vön að vera bara hérna heima en hún kom bara ein heim um kvöldið. Kettirnir koma yfirleitt þegar ég kalla og það hefur bara einu sinni komið fyrir að hann komi ekki heim yfir nótt.“

Bergljót auglýsti eftir kettinum sínum Blakka á Facebook en hefur enn ekki fundið hann. Hún segir að lögregla og Dýralæknaþjónusta Suðurlands á Stuðlum hafi ekki heldur fundið hann eða fengið hann til sín.

„Inni á gagnagrunninum er hann ennþá skráður lifandi því að þegar fá dýr og örmerkjalesa það þá setja þeir það strax inn í grunninn og hringja í eiganda. Ég veit ekki hvar hann er.“

Bergljót segir að það séu mörg dæmi um að kettir hverfi í Hveragerði en fólk sé hrætt við að tjá sig opinberlega. Margir hafi þó sett sig í samband við hana og beðið um að málinu sé haldið til streitu

„Bæjarelítan vill ekki að þetta sé rætt. Hér í bæjarfélagi eins og Hveragerði eru ofboðslega miklir þöggunartilburðir. Fólk veit og þegir, alveg eins og með barnaníðinga úti á landi, það vita kannski allir að þessi er barnaníðingur en enginn segir neitt fyrr en einhver getur ekki meir.“

Hann var bara hálfur

Þegar færslan var sett í Facebook-hópinn Kisur í Hveragerði um sundurskorna ketti á laugardag þá ákvað Bergljót að kanna málið og athuga hvort hennar köttur væri þar.

„Ég trúði þessu fyrst varla. Hann býðst til að koma með mér og við förum þangað saman.“

Bergljót segir að þegar strákurinn hafi fyrst séð kettina hafi þeir verið tveir en þegar hún kom á staðinn á sunnudag hafi verið búið að fjarlægja annan þeirra.
Það voru þarna skóflur og gaffall til að stinga niður sem hafði ekki verið þarna tveimur dögum áður. Við sáum samt bara einn kött og hann var bara hálfur.
Bergljót tók köttinn upp og færði hann út til þess að geta séð hann betur og tók þar af honum mynd. Einhverjir sem sakna kattar hafa sett sig í samband við Bergljótu og beðið um að fá að sjá myndina.

„Ég hringdi strax í lögregluna og hún kom hérna í gær og tók af mér skýrslu.“

Bergljót leitar að kettinum Blakka Bergljót Davíðsdóttir

Vonlaus um að hann komi aftur

„Það eru einhverjir tveir menn sem hafa legið undir grun og lögreglan var með þetta mál í fyrra en þeir fundu aldrei út úr þessu. Það þýðir ekkert að segja mér að enginn viti hver þetta er. Það eru menn hér sem eru kattaóvinir og hafa meðal annars ekið köttum yfir Ölfusána, út í Grímsnesið og í Selvoga og skilið þá eftir.“

Bergljót segir að frostlögur sé oftast notað til þess að eitra fyrir köttunum.

„Það er ofboðslega kvalarfullt, þeir eru lengi að deyja út af þessu og þetta fer í nýrun á þeim.“

Hún segir að ef eitrað sé fyrir köttum með frostlegi þá þurfi að láta svæfa þá, þeir eigi enga lífsvon því þetta skemmi í þeim nýrun. Bergljót segir að meira en tíu kettir hafi horfið í Hveragerði síðustu tvö ár en Blakki er fjórði kötturinn hennar sem hverfur síðan árið 2011.

„Ég bara veit ekkert um afdrif þeirra. Allir nema einn voru örmerktir en ég hef ekkert frétt af þeim. Ég er búin að leita af þeim og gera allt sem hægt er til þess að lýsa eftir þeim.“

Bergljót hefur ekki gefist upp og heldur áfram að leita að kettinum sínum.

„Ég er eiginlega vonlaus um að hann komi þessi elska, það er búið að vera rigning svo hann væri kominn heim ef ekki hefði eitthvað komið fyrir. Þess vegna fór ég þarna uppeftir því ég var svo hrædd um að þetta væri mín kisa.“

Berglind segir að það þurfi að halda íbúafund um þessi mál.

„Það bara verður að uppræta þetta, þetta er ekki hægt. Þetta er eins og krabbamein og það er alveg óþolandi ástand að óttast svona um dýrin sín. Fjórar kisur á fimm árum er of mikið.“

Ekki ástæða fyrir íbúafundi

„Ég sé að það er búið að hafa samband við lögreglu og ég treysti henni til þess að gera það sem gera þarf í þessum málum,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði. Hún telur málið þó ekki vera komið á það stig að boða eigi til íbúafundar.

„Ég hef bara fylgst með þessu á samfélagsmiðlum en það hefur enginn sent mér formlegt erindi og það hefur ekki verið haft formlega samband núna.“

Aðspurð hvort það sé mögulegt að eitrað hafi verið fyrir hennar eigin ketti svarar Aldís: „Nei, það er alveg útilokað. Ég efast ekki um að hann hafi fengið taugaáfall af flugeldasýningunni.“

Bæjarstjórinn segir alveg skilyrðislaust að vel eigi að fara með dýr.

„Ég hef samt sagt það í allri þessari umræðu að það sé mikilvægt að það sé ekki farið offari á neinn hátt. Ég treysti yfirvöldum til þess að grípa til aðgerða ef talin er ástæða til þess. Fólk á alltaf skilirðislaust að leita til lögreglunnar,“ segir Aldís. Fólk eigi alls ekki að taka lögin í sínar hendur eða ákveða hver sé sökudólgur í málum. 

Hún er afdráttarlaus í svörum spurð út í þá gagnrýni að þöggun sé í bænum varðandi hvarf á köttum.

„Ég harðneita allri slíkri umræðu, hér er engin þöggun.“

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði þurfti að láta lóga kettinum sínum Gosa á dögunum Aldís Hafsteinsdóttir

Mögulega farið illa með dauða ketti

Bæjarstjórinn minnir á að það sé flókið að búa í sambýli við annað fólk. Því þurfi allir að temja sér ákveðið umburðarlyndi.

„Það er til fólk sem hatar það að kettir komi inn á lóð hjá þeim, svo ég tali nú ekki um jafnvel inn hjá fólki. Kattaeigendur verða að skilja það sjónarmið um leið og almenningur verður að skilja það að það er erfitt að hemja ketti. Það er ekkert sem gefur mönnum leyfi til að stúta annarra manna köttum. Ef einhver gerir það þá er það bara lögreglumál.“

Varðandi köttinn sem fannst í gær segir Aldís að það sé erfitt að trúa því að einhver hafi gert þetta við lifandi kött.

„Þetta er sveitabær sem bærinn var að eignast og þarna hefur í gegnum tíðina verið gríðarlega mikið af villiköttum, jafnvel í tugatali. Mögulega hefur eitthvað verið farið illa með dauða ketti. Ég veit samt ekkert um það, þetta er bara það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá þetta.

Aldís segir að hún sjái ekki hvernig ætti að vera hægt að skera kött lifandi, hún geti ekki einu sinni séð gjörninginn fyrir sér.

„Fyrir utan það að þetta er þannig viðbjóður að ef einhver svoleiðis aðili gengur laus í Hveragerði myndi ég bara kalla til sérdeildir lögreglunnar því þá erum við með glæpamenn á hæsta stigi. Það má hafa gerst að einhver vitleysingur hafi látið sér detta í hug að kryfja kött sem er þegar dauður, það gæti hafa gerst.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.