Viðskipti innlent

Hugsanlegir kaupendur skoða álverið

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá álverinu í Straumsvík.
Frá álverinu í Straumsvík. Vísir/GVA
Mögulegir kaupendur að álveri Rio Tinto Alcan (RTA) í Straumsvík munu skoða verksmiðjuna á næstu vikum og mögulega strax í næstu viku. Gott hljóð í garð sölunnar er í flestum strokkum.

Rannveig Rist, forstjóri álversins, tilkynnti á starfsmannafundi í gær að RTA stefndi að því að selja verksmiðju félagsins hér á landi. Verði ekki af sölunni segist fyrirtækið ætla að halda áfram rekstri þess.

„Ég hef ekki fengið margar fyrirspurnir um framhaldið og fólk sem ég hef rætt við er ekki uggandi yfir því sem framtíðin ber í skauti sér,“ segir Eyþór Árnason, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna álversins.

„Ég fór fram á það að framhaldið yrði gegnsætt og við fengjum að vita hvaða samsteypur væru mögulega að koma inn í ferlið. Það var samþykkt á fundinum,“ segir Eyþór. Hann bætir því við að viðbúið sé að söluferlið taki allt að tvö ár en þó sé von á mögulegum kaupendum strax á næstu vikum.

„Ég á ekki von á öðru en að þetta gangi ljúft áfram þó að það komi aðrir rekstraraðilar að verksmiðjunni,“ segir Kolbeinn Gunnarsson, formaður verkalýðsfélagsins Hlífar. Af um 400 starfsmönnum álversins eru rúmlega 300 í Hlíf.

„Ég átti samtal við forstjóra Rio Tinto strax að loknum starfsmannafundinum. Hún fullvissaði mig um að þetta væri í eðlilegu ferli og yrði rekið áfram ef ekki yrði af sölu. Á þessu stigi höfum við því engar áhyggjur af stöðu mála,“ segir Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði.


Tengdar fréttir

Rio Tinto hyggst selja álverið í Straumsvík

Afkoma fyrirtækisins hefur verið slök síðustu ár en Rannveig Rist segir það ekki helstu ástæðu sölunnar. Hún segir sérstöðu álversins mikla og hefur ekki áhyggjur af eftirspurn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×