Erlent

Líkurnar á að Irma gangi á land í Flórída aukast

Kjartan Kjartansson skrifar
Spá um slóð Irmu fram á þriðjudag.
Spá um slóð Irmu fram á þriðjudag. Bandaríska Fellibyljamiðstöðin
Bandaríska fellibyljamiðstöðin segir nú að auknar líkur séu á því að fellibylurinn Irma gangi á land á sunnanverðri Flórída sem hættulegur meiriháttar fellibylur. Tíu manns hafa farist í Karíbahafi af völdum Irmu.

Varað er við lífshættulegum sjávarflóðum og vindstyrk í stórum hluta Flórída, að sögn Washington Post. Íbúar þar, Georgíu og Norður- og Suður-Karólínu hafa verið hvattir til að búa sig undir áhrif stormsins.

Irma er nú nærri Turks- og Caicoseyjum og stefnir á Bahamaeyjar, að því er segir í síðustu uppfærslu Fellibyljamiðstöðvarinnar kl. 21 að íslenskum tíma. Þá er talið að áhrifa fellibyljarins muni gæta á norðanverðri strönd Kúbu.

AP-fréttastofan segir að staðfest sé að þrír hafi farist á Bandarísku Jómfrúareyjum en yfirvöld þar segja að Irma hafi valdið hörmungum þar.

Fjórir hafa farist á franska hluta St. Martin-eyju og þrír til viðbótar á Barbúda, Angvilla og hollenska hluta St. Martin.

Irma olli mikilli eyðileggingu á eynni St. Martin. Fimm fórust þar.Vísir/AFP
José orðinn að meiriháttar fellibyl

Aðeins dró úr vindstyrk Irmu í dag vegna áhrifa þurrs lofts og lands þegar fellibylurinn fór hjá Hispanjólu. Hún er þó enn í fimmta og öflugasta flokki fellibylja.

Vindhraðinn gæti aftur aukist þegar Irma færist yfir hlýrri sjó yfir Flórídasundi.

Fellibylurinn José á Atlantshafi er nú talinn þriðja stigs fellibylur. Hann er þá þriðji meiriháttar fellibylurinn sem myndast yfir Atlantshafi á þessu fellibyljatímabili.

José er nú rúmum þúsund kílómetra austur af Litlu-Antillaeyjum. Mesti viðvarandi vindhraði í fellibylnum er nú 54 m/s.

Þá er fellibylurinn Katia í Mexíkóflóa byrjaður að þokast að landi í Mexíkó.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×