Erlent

Hafa auga með fleiri stormum við Mexíkóflóa

Kjartan Kjartansson skrifar
Kort sem sýnir spá Veðurstofu Bandaríkjanna um slóð hitabeltisstormsins Irmu næstu dagana.
Kort sem sýnir spá Veðurstofu Bandaríkjanna um slóð hitabeltisstormsins Irmu næstu dagana. Veðurstofa Bandaríkjanna
Bandarískir veðurfræðingar fylgjast nú grannt með þróun hitabeltisstormsins Irmu í Atlantshafi. Þó að stormurinn sé langt frá landi er ekki útilokað að hann geti tekið stefnu á Karíbahafið, Mið-Ameríku, Mexíkó og jafnvel Bandaríkin í byrjun næstu viku.

Irma er níundi Atlantshafsstormurinn sem hefur fengið nafn á þessu fellibyljatímabili, að sögn Washington Post. Hún myndaðist undan ströndum Afríku og varð að hitabeltisstormi í gær. Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna spáir því að að Irmu muni vaxa ásmegin á næstu dögum.

Þannig benda líkön til þess að Irma gæti náð styrk fellibyls á morgun eða um helgina. Stormurinn verði þó enn þúsundir kílómetra frá landi.

Spár geta þó enn ekki sýnt með vissu hvert Irma mun stefna eftir því sem hún þokast vestur og norður á bóginn. Mögulega gæti hún náð alla leið til fyrrnefndra svæða.

Hræringar sem gætu orðið að stormi í Mexíkóflóa

Þá halda veðurfræðingar vökulu auga á hræringum í norðvestanverðum Mexíkóflóa. Þar benda líkön til þess að hitabeltisfellibylur geti myndast og stefnt á Texas um miðja næstu viku.

Tugir manna hafa farist í austanverðu Texas frá því að fellibylurinn Harvey gekk á land á föstudagskvöld. Ofsveðrinu hafa fylgt einhverjar mestu rigningar sem sögur fara af í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×