Lífið

Orðbragðið brýtur í bága við reglur Facebook

Guðný Hrönn skrifar
Stilla úr kvikmyndinni Slavek the Shit eftir Grím Hákonarson.
Stilla úr kvikmyndinni Slavek the Shit eftir Grím Hákonarson.
Gamanmyndahátíð Flateyrar fer fram um helgina, dagana 31. ágúst – 3. september, en brösulega hefur gengið að auglýsa hátíðina. „Ég ætlaði að kaupa auglýsingu á Facebook fyrir hátíðina en svo fæ ég skilaboð um að Facebook vilji ekki samþykkja hana,“ segir Eyþór Jóvinsson, einn skipuleggjandi Gamanmyndahátíðar Flateyrar.

„Auglýsingin brýtur í bága við reglurnar þeirra. Í fyrstu gat ég með engu móti áttað mig á því hvernig væri verið að brjóta reglur svo ég sendi þeim póst. Ég fékk þá svör um að orðbragðið í auglýsingunni væri ekki hægt að birta á Facebook,“ segir Eyþór og tekur orðið „shit“ sem dæmi en ein kvikmyndin sem sýnd er á hátíðinni heitir Slavek the shit. Eyþór gerði tilraun til að tjónka við starfsfólk Facebook. „Þrátt fyrir nokkra tölvupósta fram og til baka féllst Facebook ekki á að leyfa auglýsinguna og þar við situr.

Þess má geta að á hátíðinni er lögð áhersla á íslenskar gamanmyndir, alls verða sýndar 23 íslenskar myndir í ár. Hátíðin fer að mestu fram í gömlum bræðslutanki sem stendur á Flateyri. „Það er væntanlega eina kringlótta kvikmyndahús heims,“ segir Eyþór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×