Lífið

Grænmetisæta í þrjátíu ár

Hanna Hlíf hefur yndi af því að búa til grænmetisrétti frá eigin bjrósti. Hér er hún með dóttur sinni, Marsibil Sól.
Hanna Hlíf hefur yndi af því að búa til grænmetisrétti frá eigin bjrósti. Hér er hún með dóttur sinni, Marsibil Sól.
Hanna Hlíf Bjarnadóttir myndlistarkona gaf út bókina Eldhús grænkerans fyrir síðustu jól. Hanna hefur verið grænmetisæta í 30 ár og býr til alla sína rétti frá grunni.

Hanna segir að margt hafi breyst á þeim þrjátíu árum síðan hún gerðist grænmetisæta. Ástæða þess að hún valdi þessa leið í mataræðinu er umhyggja gagnvart dýrum, ekki af heilsufarsástæðum.

Eldhús grænkerans er fyrsta bók Hönnu Hlífar en vinkonur hennar, Rut Sigurðardóttir ljósmyndari og Katrín Bessadóttir, unnu hana með henni. „Ég á nóg efni í aðra bók og við vinkonurnar erum spenntar að vinna meira saman. Við byrjuðum allar nýlega í nýjum störfum þannig að tíminn hefur verið naumur. Síðan verð ég með fullt af námskeiðum í haust, bæði hjá Salt Eldhúsi auk þess sem ég er að fara um landið með námskeið,“ segir Hanna og bætir við að hún hafi fundið mikinn áhuga á bókinni og grænmetisfæði almennt undanfarið. Hanna starfar sem verslunarstjóri í safnverslun Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg meðfram matargerðinni.

Í bókinni eru 120 uppskriftir sem Hanna hefur búið til sem henta öllum tilefnum. Margar þeirra eru fyrir veganista. Hér eru tvær spennandi uppskriftir úr bókinni.

Buffalóblómkál

1 meðalstór blómkálshaus

2?½ dl hveiti, Kaja

250 ml vatn

3 dl saltstangir, muldar smátt

3 dl kornfleks, mulið smátt

1 msk. Shakashuka, Krydd- og tehúsið, má sleppa

Pipar

½ b. barbecue-sósa

Tabasco-sósa, má sleppa

Hitið ofn í 220°. Þvoið og brytjið blómkálið í jafna bita. Blandið hveiti og vatni saman, soppan á að vera svipuð að þykkt og vöffludeig, veltið blómkálsbitunum upp úr deiginu.

Blandið saltkexraspinu og saltstangamulningnum saman ásamt kryddi, og og veltið bitunum upp úr því.

Færið á bökunarpappír og bakið í um 20 mín. eða þangað til þeir eru stökkir og brúnir. Blandið barbecue-sósunni og tabasco-sósunni saman í skál. Takið bitana út úr ofninum og færið þá í skálina með sósunni og veltið upp úr, færið aftur inn í ofn í 20 mín. í viðbót.

Borðið með barbecue-sósunni.

Barbecue-sósa

2 bollar lífræn tómatsósa

1 bolli vatn

½ bolli apple cider vinegar

1 msk. Tamari-sósa

1 msk. sítrónusafi

1 tsk. tabasco-sósa

½ msk. pipar

½ msk. onion powder

1 tsk. hvítlauksduft

1 msk. sinnep

5 msk. púðursykur

5 msk. reyrsykur

Blandið tómatsósu, vatni, apple cider vinegar, Worcestershire-sósu, tabasco og sítrónusafa saman í potti og látið suðuna koma upp. Bætið rest af hráefnum saman við og lækkið hitann. Látið malla í um 10 mínútur.

Grillaður halloumi-ostur

100 g kúskús

1 dl olía

1 msk. dijon-sinnep

1 msk. púðursykur

1 hvítlauksrif, pressað

1 msk. balsamedik

1 rauður chili-pipar, smátt saxaður og fræhreinsaður

50 g þurrkuð trönuber, þurrristuð, Kaja organic

Safi úr ½ sítrónu

½ bakki sykurbaunir

60 g halloumi, skorinn í jafna bita

100 g kirsuberjatómatar, skornir í helminga

2 vorlaukar, saxaðir, líka græni hlutinn

50 g salat, t.d. klettasalat

Hnefafylli af ferskri mintu, saxaðri

Hnefafylli af ferskum kóríander, söxuðum

Sjóðið kúskús eftir leiðbeiningum og geymið til hliðar. Hrærið saman olíu, sinnepi, hvítlauk, chili, sítrónusafa, balsamediki og púðursykri þangað til sykurinn leysist upp. Bætið þessu út í kúskúsið og blandið vel saman. Sjóðið baunirnar í söltu vatni í um 5-7 mín. Hitið olíu á pönnu og steikið halloumi-ostinn þar til að hann er brúnn á báðum hliðum, kreistið sítrónusafa yfir ostinn í lokin. Bætið öllu grænmeti og fersku kryddi saman við kúskúsið og raðið svo baunum og osti yfir.

Gott með góðu balsamsírópi.

Grillaður halloumi-ostur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×