Erlent

Sérfræðingar vara við drápsvélmennum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Elon Musk, einn stofnenda rafbílaframleiðandans Tesla, er á meðal þeirra sem skrifa undir bréfið.
Elon Musk, einn stofnenda rafbílaframleiðandans Tesla, er á meðal þeirra sem skrifa undir bréfið.
Yfir hundrað sérfræðingar í gervigreind hafa hvatt Sameinuðu þjóðirnar til fyrirbyggjandi aðgerða í þróun á „drápsvélmennum“. Frumkvöðullinn Elon Musk, einn stofnenda rafbílaframleiðandans Tesla, er á meðal þeirra sem skrifa undir bréf varðandi málið.

Í opnu bréfi, sem sérfræðingarnir skrifa allir undir, er varað við „þriðju hernaðarbyltingunni.“ Í bréfinu er „sjálfvirkri og banvænni“ tækni líkt við „öskju Pandóru“ og þá er kallað eftir banni á notkun gervigreindar í hernaði, sem sérfræðingarnir kalla drápsvélmenni.

„Um leið og þessi tækni hefur verið þróuð mun hún opna fyrir hernaðarátök á mælikvarða sem hefur ekki þekkst áður, og á hraða sem mannfólk hefur ekki burði til að ná utan um,“ skrifa sérfræðingarnir.

Þeir vara einnig við því að gervigreindarvopnin geti haft hörmulegar afleiðingar í meðförum hryðjuverkamanna gegn saklausum borgurum. „Við höfum ekki langan tíma til að bregðast við,“ segja sérfræðingarnir enn fremur.

Drápsvélmenni er sjálfvirkt vopn sem getur miðað á skotmörk sín og grandað þeim án aðkomu manna, að því er segir í frétt BBC um málið. Þessi vopn hafa enn ekki verið búin til en tækniframfarir hafa fært vísindamenn nær því á síðustu árum.

Árið 2015 skrifuðu yfir þúsund sérfræðingar í tæknigeiranum undir sambærilegt bréf þar sem varað var við sjálfvirkum vopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×