Innlent

Kaupverð á Geysi liggi fyrir á næstu mánuðum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Landeigendur vildu rukka inn á Geysissvæðið í trássi við ríkið.
Landeigendur vildu rukka inn á Geysissvæðið í trássi við ríkið. vísir/anton brink
Ekki liggur fyrir hve hátt verð ríkið kemur til með að greiða fyrir kaup á Geysi. Vonast er til þess að matsmenn skili niðurstöðu sinni í október. Þá verður eitt ár liðið frá því að kaupsamningurinn var undirritaður.

Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður landeigendaVÍSIR/VALLI
Deilt hafði verið um landsvæði við Geysi í nokkur ár en félag landeigenda vildi rukka gesti fyrir aðgang að hverasvæðinu. Á endanum varð það úr að samkomulag um kaup ríkisins var undirritað en landeigendur sögðu það hafa verið gert til að komast hjá eignarnámi. Kaupverð var háð mati matsmanna.

Hvor aðili um sig tilnefndi einn mann í matsnefndina. Fyrir hönd ríkisins situr þar Sigurður Harðarson hagfræðingur en Vífill Oddsson verkfræðingur situr fyrir landeigendur. Sátt náðist um að Ragnar H. Hall, hæstaréttarlögmaður, yrði oddamaður í nefndinni.

„Þetta hefur allt verið í eðlilegum farvegi. Ríkið skilaði inn greinargerð og ég skilaði inn annarri fyrir landeigendur,“ segir Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður landeigenda. Báðum aðilum gafst síðan kostur á að skila inn athugasemdum við greinargerð hins.

Matsmenn gengu um svæðið ásamt aðilum samningsins fyrr á árinu en málið hefur síðan tafist vegna sumarleyfa. „Við vonumst til að niðurstaða liggi fyrir ekki síðar en í október,“ segir Hjörleifur. Hann vill ekki upplýsa um innihald greinargerðanna enda ríki trúnaður um þær.

Sætti annað hvort ríkið eða landeigendur sig ekki við niðurstöðu matsnefndarinnar verður hægt að skjóta henni til yfirmatsnefndar. Ákvörðun þeirrar nefndar verður hins vegar endanleg. Ekki er unnt að skjóta málinu til dómstóla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×