Lífið

Mikið hlegið í Hörpu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Spaugstofumenn sáttir með kvöldið.
Spaugstofumenn sáttir með kvöldið. myndir/jorri
Það var mikið hlegið og klappað í Hörpu á miðvikudagskvöldið en þá fór fram 500. sýningin af How to become Icelandic in 60 minutes. Alls hafa um 60 þúsund manns séð sýninguna sem var frumsýnd í maí 2012, fljótlega eftir að Harpa var opnuð. 

How to become Icelandic in 60 minutes er leiksýning sem leikin er á ensku og samin og framleidd af Bjarna Hauki Þórssyni og leikstýrt af Sigurði Sigurjónssyni. Leikarar eru Karl Ágúst Úlfsson, Kjartan Darri Kristjánsson og Örn Árnason en sá síðastnefndi lék á 500. sýningunni.

„Við erum ákaflega ánægð og stolt með hversu vel sýningin hefur gengið. Það er frábært að hafa náð 500 sýningum og fengið 60 þúsund áhorfendur til að sjá hana í Hörpu. Þetta er Íslandsmet því það hefur engin íslensk leiksýning verið sýnd svona oft. Nokkrar sýningar hafa verið settar upp mjög oft eins og t.d. Dýrin í Hálsaskógi en þá er um að ræða margar mismunandi uppfærslur af verkinu,“ segir Bjarni Haukur.

„Við höfum fengið mjög góða dóma bæði hjá Íslendingum og ekki síst útlendingum en sýningin er ætluð öllum þeim sem vilja læra hvað það er að vera Íslendingur. Við erum hvergi nærri hætt og munu halda áfram með sýninguna eins lengi og fólk hefur ánægju af því að koma og sjá hana og vonandi verður það sem lengst.“

Hér að neðan má sjá skemmtilegar myndir frá miðvikudagskvöldinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×