Íslenski boltinn

Milos: Væri fínt að skila liðinu í topp fimm

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Milos var ánægður með sigurinn á ÍA.
Milos var ánægður með sigurinn á ÍA. vísir/anton
Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, sagði að sínir menn hefðu þurft að hafa mikið fyrir sigrinum á ÍA í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur og ekki þægilegur að spila. Við reyndum að brjóta þá niður með því að setja annað mark en það gekk ekki,“ sagði Milos eftir leik.

„Engu að síður fengum við fullt af færum til að skora og áttum jafnvel að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. En þeir eru með betra lið en taflan segir og ég vissi að þetta myndi verða erfitt, sérstaklega í ljósi þjálfarabreytinganna. Það kemur alltaf smá mótspyrna frá strákunum þegar svona gerist.“

Blikar voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleiknum en slökuðu á klónni í þeim seinni.

„Það var algjör óþarfi. Við áttum alltof margar feilsendingar og náðum ekki að halda boltanum og stjórna leiknum eins og við gerðum í fyrri hálfleik. En strákarnir unnu vel fyrir sigrinum,“ sagði Milos.

Willum Þór Willumsson hélt sæti sínu í byrjunarliði Breiðabliks frá 0-3 sigrinum í Ólafsvík í síðustu umferð og stóð fyrir sínu inni á miðju Blika.

„Þetta er þriðji leikurinn hans á sjö dögum. Mér fannst hann mjög góður í svona 60 mínútur. Svo vantaði aðeins orku í hann sem er eðlilegt. Heilt yfir var ég ánægður með hans spilamennsku,“ sagði Milos.

Með sigrinum komst Breiðablik upp í 6. sæti deildarinnar og það glittir í Evrópusæti.

„Frá fyrsta degi hef ég sagt að það væri fínt að skila liðinu í topp fimm. Ef tækifæri gefst fyrir eitthvað annað erum við tilbúnir að taka því en nú hugsum við um að hvíla okkur og einbeita okkar að Val,“ sagði Milos að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×