Lífið

Sex árum síðar er rétta stundin runnin upp fyrir lagið um Sjonna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pálmi kynntist Sjonna árið 2002.
Pálmi kynntist Sjonna árið 2002.
„Við Sjonni kynntumst haustið 2002 þegar við unnum saman í sýningu á Hótel Íslandi. Vinskapurinn varð strax traustur og við tók tími þar sem við í samvinnu við marga góða vini og listamenn gerðum fjölbreytt verkefni í tengslum við tónlist og leikhús,“ segir tónlistarmaðurinn Pálmi Sigurhjartarson sem gefur út lag til heiður Sigurjóns Brink sem varð bráðkvaddur á heimili sínu í Garðabæ árið 2011. Sigurjón lést úr heilablóðfalli langt fyrir aldur fram.

Sjonni hefði átt afmæli í dag en Pálmi samdi lagið Þú einn veist rétt eftir að hann lést.

„Skömmu eftir að hann lést samdi ég lag og texta tileinkað minningu hans en vildi bíða með að gefa það út á þeirri stundu. En stundin er komin.“

Pálmi var einn af vinum hans Sjonna sem fór fyrir hönd Íslands í Eurovision með lagið Coming home í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Düsseldorf um vorið 2011.

„Ég gekk til liðs við hljómsveitina hans The Flavours og fékk að vinna með lögin hans þar. Sjonni var ekki einungis góður söngvari heldur líka afbragðs lagahöfundur. Við ásamt Jóhannesi Ásbjörnssyni og Hilmi Snæ gerðum sýninguna Bítl sem sló í gegn í Loftkastalanum og þar fengum við útrás fyrir bítlaæðið sem blundaði í okkur báðum.“

Pálmi og Sjonni unnu mikið saman á sínum tíma og var því fráfall hans mjög erfitt fyrir Pálma.

„Mér finnst rétt að gefa lagið út á afmælisdeginum hans 29. ágúst. Lagið ,Þú einn veist, er tileinkað minningu míns góða vinar Sigurjóns Brinks og er eitt af 15 lögum af væntanlegri sólóplötu minni sem ber nafnið  Undir fossins djúpa nið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×