Viðskipti innlent

Vill sögufræga danska verslun á Hafnartorgið

Framkvæmdum á Hafnartorginu á að ljúka um mitt næsta ár.
Framkvæmdum á Hafnartorginu á að ljúka um mitt næsta ár. vísir/ernir

 Fasteignafélagið Reginn hefur samkvæmt heimildum Fréttablaðsins átt í viðræðum við eigendur Illums Bolighus um opnun dönsku húsgagna- og búsáhaldaverslunarinnar á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. Forstjóri Regins vill ekki staðfesta að viðræðurnar standi yfir en heimildir herma að samkomulag sé ekki í höfn. 

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins. vísir/gva

„Við erum með alls konar fólk í þessum málum [viðræðum við mögulega leigutaka] fyrir okkur heima og erlendis. Og það hefur verið rætt við alls konar aðila í Skandinavíu um verslanir,“ segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, og vill ekki tjá sig frekar um málið.

Illums Bolighus rekur sex verslanir í Danmörku. Sú þekktasta og stærsta, um tíu þúsund fermetrar að stærð, er á Amagertorgi við Strikið í Kaupmannahöfn. Þá rekur fyrirtækið einnig þrjár verslanir í Svíþjóð, tvær í Noregi og eina í Hamborg í Þýskalandi. Sú síðastnefnda er nýjasta verslun Illums og var opnuð í nóvember í fyrra. Fyrirtækið var stofnað árið 1925 og er í dag í eigu dansks fjárfestingafélags undir forystu Henrik Yp­kendanz. Fyrirtækið teng­ist ekki stór­versl­un­inni Ill­um, sem rek­in er í næsta húsi á Strikinu, og var í eigu Baugs Group og annarra íslenskra fjárfesta á árunum fyrir hrun.

Reginn keypti um 8.600 fermetra verslunar- og veitingarými á Hafnartorgsreitnum sem nú er í byggingu. Verklok eru áætluð um mitt næsta ár en eins og komið hefur fram mun sænski fatarisinn H&M opna sína þriðju verslun hér á landi á torginu. Reginn og dótturfélag þess, Eignarhaldsfélagið Smáralind, undirrituðu í júlí í fyrra leigusamninga við H&M um opnun tveggja verslana. Flaggskipsverslunin, um 4.300 fermetrar að stærð og á tveimur hæðum, verður opnuð í Smáralind í lok þessa mánaðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira