Innlent

Stórfelld líkamsárás gegn fyrrverandi kærasta: „Hvar er hnífurinn minn, hvar er kylfan mín“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hæstiréttur.
Hæstiréttur. vísir/gva

Hæstiréttur Íslands hefur úrskurðað konu í áframhaldandi gæsluvarðhald til 28. ágúst næstkomandi fyrir tilraun til manndráps eða stófellda líkamsárás.

Konunni er gefið að sök að hafa aðfararnótt mánudagsins 5. júní síðastliðinn í félagi við annan einstakling ráðist á fyrrverandi kærasta sinn á heimili hans og slegið hann með hafnaboltakylfu í höfuð og líkama og stungið hann í hægra brjóstið.

Hlaut maðurinn skurð sem náði niður í mjúkvefi og var nærri slagæð vöðva sem sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítalaháskólasjúkrahúss telur að hefði getað leitt af sér lífshættulega blæðingu inn á lunga, hefði hnífurinn snert æðina.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að konan hafi hringt ítrekað í sinn fyrrverandi umrætt kvöld en sá ekki nennt að tala við hana. Var hann með þremur vinum sínum og einni konu sem hann lét svara í símann í eitt skipti.

Kærastan fyrrverandi brást við með því að skella á og sendi skömmu síðar smáskilaboð í farsíma mannsins þar sem hún sagðist hlakka til að hitta þau. Skömmu síðar var bankað upp á og var konan þá mætt í félagi við annan mann. Höfðu þau klúta fyrir andlitum sínum og konan hélt á kylfu sem hún sló sinn fyrrverandi með.

„Ég faldi dótið“

Vitni sem var að ganga eftir götunni umrædda nótt lýsti því í skýrslu hjá lögreglu að hún hafi heyrt einhvern segja „hún stakk hann, hún stakk hann.“ Hún hafi einnig heyrt konuna segja við samverka sinn „hvar er hnífurinn minn, hvar er kylfan mín“ en hann hafi svarað „ég faldi dótið.“

Lögregla fann blóðugan hníf og kylfu við leit í garðinum sem talinn er tengjast málinu. vísir/eyþór

Konan hefur viðurkennt að hafa farið ásamt vini sínum heim til mannsins og slegið hann með hafnaboltakylfu, en hún neitar að hafa stungið hann með hníf. Í skýrslutöku hjá lögreglu sama dag og hún var handtekin kvaðst hún hafa farið heim til brotaþola til að skila lyfjum sem hún hafi fengið hjá honum. Hún hafi farið vopnuð hafnaboltakylfu og “teiser” þar sem kona sem hafi svarað í síma brotaþola hafi hótað henni í síma.

Í skýrslutöku þann 26. júní sagðist konan hafa hringt í manninn til að skila honum lyfjum. Þegar önnur kona svaraði hafi hún fundið til mikillar reiði og afbrýðisemi. Hafi hún heyrt í félaga sínum með það að markmiði að fara og hræða sinn fyrrverandi og konuna.

Félagi konunnar sem var með í för sagðist í skýrslutöku hjá lögreglu sama dag hafa farið með konunni að heimili mannsins í því skyni að hræða hann. Hann segist hafa séð þau takast á fyrir utan húsið og kvaðst hann hafa heyrt karlmann hrópa „hnífur“ og hafi hann þá séð að konan hélt á hníf. Hann sagðist hafa losað hnífinn úr hendi hennar með því að slá hendinni utan í vegg en við það hafi hún misst hnífinn. Hann kvaðst þá hafa hent hnífnum og hafnaboltakylfunni út í garð við heimili brotaþola.

Lögregla fann blóðugan hníf og kylfu við leit í garðinum sem talinn er tengjast málinu.

Héraðsdomur Reykjavíkur hafði þann 4. ágúst síðastliðinn úrskurðað konuna í gæsluvarðhald til 1. september næstkomandi. Hæstiréttur mildar niðurstöðuna úr héraði um þrjá daga, eða til 28. ágúst.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.