Erlent

Tveir á spítala eftir skotárás í Kaupmannahöfn

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Kaupmannahafnarlögreglan að störfum fyrr í sumar
Kaupmannahafnarlögreglan að störfum fyrr í sumar Vísir/AFP

Tveir menn á aldrinum 23 og 24 ára særðust í skotárás á Rauða torginu á Norðurbrú í Kaupmannahöfn á tíunda tímanum í gærkvöldi að íslenskum tíma. Mennirnir eru ekki í lífshættu en hlúð er að mönnunum á sjúkrahúsi.

Á blaðamannafundi Kaupmannahafnarlögreglu í morgun kom fram að að öllum líkindum voru tveir grímuklæddir menn á bifhjóli að verki. Á annar þeirra að hafa ekið hjólinu en hinn hleypt af byssunni.

Jørgen Skov, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn, sagði á fundinum að árásin tengist ekki endilega uppgjöri glæpagengja sem geisað hefur í borginni síðustu mánuði. Lögreglan leitar nú að vitnum að árásinni.

Talsvert hefur verið um skotárásir í Kaupmannahöfn í sumar vegna átaka gengja þar í landi en tilkynnt hefur verið um 24 skotárásir í borginni á síðustu tveimur mánuðum.

Þá voru tveir stungnir með hnífi í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Líklegt þykir að þær árásir tengist uppgjöri glæpagengjanna. Annar þeirra sem var stunginn er sautján ára unglingspiltur.

Mennirnir fjórir eru ekki í lífshættu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira