Erlent

Tveir á spítala eftir skotárás í Kaupmannahöfn

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Kaupmannahafnarlögreglan að störfum fyrr í sumar
Kaupmannahafnarlögreglan að störfum fyrr í sumar Vísir/AFP
Tveir menn á aldrinum 23 og 24 ára særðust í skotárás á Rauða torginu á Norðurbrú í Kaupmannahöfn á tíunda tímanum í gærkvöldi að íslenskum tíma. Mennirnir eru ekki í lífshættu en hlúð er að mönnunum á sjúkrahúsi.

Á blaðamannafundi Kaupmannahafnarlögreglu í morgun kom fram að að öllum líkindum voru tveir grímuklæddir menn á bifhjóli að verki. Á annar þeirra að hafa ekið hjólinu en hinn hleypt af byssunni.

Jørgen Skov, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn, sagði á fundinum að árásin tengist ekki endilega uppgjöri glæpagengja sem geisað hefur í borginni síðustu mánuði. Lögreglan leitar nú að vitnum að árásinni.

Talsvert hefur verið um skotárásir í Kaupmannahöfn í sumar vegna átaka gengja þar í landi en tilkynnt hefur verið um 24 skotárásir í borginni á síðustu tveimur mánuðum.

Þá voru tveir stungnir með hnífi í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Líklegt þykir að þær árásir tengist uppgjöri glæpagengjanna. Annar þeirra sem var stunginn er sautján ára unglingspiltur.

Mennirnir fjórir eru ekki í lífshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×