Innlent

Costco hefur töluverð áhrif á berja- og tómatabændur á Íslandi

Sunna Sæmundsdóttir og Ingvar Þór Björnsson skrifar
Viðræður eru um að koma íslenskri vöru inn í Costco og vonar Gunnar að menn nái saman um það.
Viðræður eru um að koma íslenskri vöru inn í Costco og vonar Gunnar að menn nái saman um það. Vísir/Eyþór
Opnun Costco hefur haft töluverð áhrif á berja- og tómatabændur á Íslandi. Tómatabændur hafa þurft að frysta mun meira af sinni vöru en viðræður eru um að koma íslensku grænmeti og ávöxtum inn í stórverslunina.

Greint var frá ófremdarástandi hjá íslenskum jarðaberjabændum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í vikunni. Jarðaberjabóndi á Flúðum sagðist hættur að týna ber í nokkrum gróðurhúsum þar sem berin seldust ekki.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda segir opnun Costco hafa merkjanleg áhrif á íslenska grænmetisbændur. „Það er talsverður samdráttur í sölu á íslenskum tómötum. Það er bara staðreynd. Costco kemur inn á markaðinn þegar mesta uppskeran er og það hefur líka talsvert að segja,“ segir Gunnar.

Viðræður eru um að koma íslenskri vöru inn í Costco og vonar Gunnar að menn nái saman um það. „Kúnninn hefur þá allavega val um það hvort hann velji innflutta eða innlenda vöru,“ segir hann.

Gunnar segir tómatabændur þó standa ögn betur en berjabændur þar sem uppskeran sé mikið notuð í vinnsluvörur. Tómötunum sé ekki fargað eins og þurfi að gera með berin en að bændur séu að frysta mun meira magn en þeir reiknuðu með.

Jafnframt segir Gunnar að erfitt sé fyrir íslensku fyrirtækin að keppa við þau erlendu á verðgrundvelli en það sé þó eitthvað sem þurfi að skoða. „Erfitt er að hagræða í greininni þannig að bændur geti lækkað verðið á móti þessu. Íslensku vörurnar eru ræktaðar við allt aðrar aðstæður en úti í Evrópu. Þetta er eitthvað sem menn þurfa að fara yfir og skoða," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×