Sport

Sofia Íslandsmeistari í tennis aðeins fjórtán ára gömul | Rafn varði titilinn í karlaflokki

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sofia, hér önnur frá vinstri, tók þátt í ÓL æskunnar í Ungverjalandi fyrr á árinu.
Sofia, hér önnur frá vinstri, tók þátt í ÓL æskunnar í Ungverjalandi fyrr á árinu. Mynd/Tennissambandið

Sofia Sóley Jónasdóttir úr Tennisfélagi Kópavogs vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki í dag er hún sigraði hina nítján ára gömlu Heru Björk Brynjarsdóttir úr Fjölni í úrslitum.

Magnað afrek þar sem Sofia er aðeins fjórtán ára gömul og er því ein af yngstu Íslandsmeisturunum í sögu tennisíþróttarinnar á Íslandi.

Var leikið í Laugardalnum á tennisvelli Þróttar en Hera Björk varð Íslandsmeistari innanhúss fyrr í vetur.

Vann Sofia Sóley í tveimur lotum,  6-1 og 6-3, og tryggði sér um leið fyrsta titil sinn en þeir verða eflaust fleiri í framtíðinni.

Í karlaflokki mættust þeir Rafn Kumar Bonifacius og Birkir Gunnarsson en þetta var endurtekning frá því þegar þeir mættust í úrslitum Íslandsmótsins innanhúss í maí síðastliðnum þar sem Birkir hafði betur.

Í dag var það hinsvegar Rafn sem reyndist sterkari í tveimur lotum, 6-3 og 7-5 og varði með því titilinn en þetta er þriðja árið í röð sem Rafn tekur titilinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira