Innlent

Sumarfrí settu fjölmiðlaskýrslu í frost

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
vísir/anton brink
„Það hefur lítið gerst í sumar, það er heiðarlega svarið,“ segir Björgvin Guðmundsson, formaður nefndar sem gera á tillögur að lagabreytingum eða nauðsynlegum aðgerðum til að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Hann segir sumarfrí fólks hafa sett strik í reikninginn í sumar en nú sé vinna að fara í gang á ný við að klára það sem eftir stendur.

Björgvin Guðmundsson, formaður nefndarinnar. Fréttablaðið/Ingvar
Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra skipaði nefndina sem að sögn Björgvins átti að skila af sér í vor. Skilin hafa síðan dregist og viðurkennir Björgvin að hann hafi brunnið inni með síðustu yfirlýsingu sína um að skila skýrslunni um mánaðamótin júní–júlí.

„Ég hef svolítið oft þurft að éta ofan í mig einhverjar tímasetningar í þessu máli, eins og allar opinberar nefndir. Ég er því tregur að nefna einhverjar tímasetningar núna en markmið mitt er að klára þetta sem allra fyrst,“ segir Björgvin um málið.

Hann segir megindrög skýrslunnar tilbúin og að drög að tillögum liggi fyrir en þau séu ósamþykkt innan nefndarinnar.

„Það þarf að klára að ganga frá skýrslunni, komast að samkomulagi um tillögurnar og þá er hægt að birta hana eftir að hún hefur verið kynnt ráðherra.“

Björgvin segir aðspurður að engar deilur hafi verið innan nefndarinnar, allir hafi lagt sitt af mörkum, sína sýn og áherslur en nú sé aðalatriðið að púsla því saman og ná sátt um lokaniðurstöðurnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×