Erlent

Rouhani hótar að slíta kjarnorkusamkomulaginu

Samúel Karl Ólason skrifar
Hassan Rouhani, forseti Íran.
Hassan Rouhani, forseti Íran. Vísir/AFP
Hassan Rouhani, forseti Íran, hefur hótað því að Íran slíti kjarnorkusamkomulaginu beiti Bandaríkin nýjum refsiaðgerðum gegn Íran. Samkomulag náðist á milli Írran, Bandaríkjanna, Rússlands, Kína og þriggja Evrópuþjóða árið 2015 um að Íran myndi stöðva kjarnorkuvopnaáætlun sína fyrir afléttingu viðskiptaþvingana.

Rouhani sagði þinginu í Íran nú í morgun að frekari refsiaðgerðir Bandaríkjanna bryti gegn samkomulaginu. Hann sagði einnig að Íran gæti hafið tilraunir sínar aftur á einungis nokkrum klukkustundum.

Hann sagði alla heimsbyggðina sjá að Donald Trump væri ekki að standa við alþjóðleg samkomulög og að Bandaríkin væru ekki áreiðanlegur samstarfsaðili um þessa stundina.

Bandaríkin beittu refsiaðgerðum gegn sex írönskum fyrirtækjum í júlí, eftir að Íranar skutu eldflaug á loft. Yfirvöld Bandaríkjanna sögðu skotið brjóta gegn samkomulaginu og samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Þá skrifaði Donald Trump undir lög í ágúst sem beita Íran, Rússland og Norður-Kóreu refsiaðgerðum.

Íranar þvertaka þó fyrir að eldflaugum þeirra sé ætlað að bera kjarnorkuvopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×