Enski boltinn

Koeman: Þurfum líka að kaupa framherja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ronald Koeman, stjóri Everton.
Ronald Koeman, stjóri Everton. Vísir/Getty
Það hefur gengið á miklu á félagaskiptamarkaðnum hjá Everton í sumar en félagskipti Gylfa Þórs Sigurðssonar frá Swansea gengu loksins í gegn í gær. Ronald Koeman, stjóri Everton, segist þó ekki vera með fullmótaðan leikmannahóp enn þá.

„Við þurfum að semja við framherja,“ sagði Koeman á blaðamannafundi í gær. „Það vita allir að við misstum Romelu Lukaku (til Manchester United) en nú erum við komnir með Wayne Rooney, Sandri Ramirez og nú Gylfa.“

„Kannski að þeir þrír geti samanlagt bætt upp fyrir þau mörk sem við missum með Lukaku en við þurfum einn til viðbótar sem getur spilað sem nía.“

„Þegar maður spilar í Evrópukeppni, og við skulum vona að við komumst þangað, og ensku úrvalsdeildinni er ekki nóg að vera bara með einn eða tvo framherja.“

Olivier Giroud var orðaður við Everton í sumar en franski sóknarmaðurinn ákvað að vera um kyrrt í herbúðum Arsenal.

Everton mætir í kvöld Hajduk Split í fyrri viðureign liðanna í umspilsumferð Evrópudeildar UEFA og ljóst að tíminn er að verða naumur fyrir Koeman að finna nýjan framherja.

„Við vitum að það er mögulegt að ná í góða leikmenn en sú staðreynd að við spilum ekki í Meistaradeildinni flækir málin.“

Næsti leikur Everton í ensku úrvalsdeildinni verður gegn Manchester City á mánudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×