Erlent

Færeyingar vilja forðast mistök Íslendinga í ferðamálum

Heimir Már Pétursson skrifar
Algengt er að ferðamenn fari fyrst til Færeyja áður en þeir halda áfram til Íslands og öfugt. Framkvæmdastjóri Visit Færeyjar Þórshöfn segir gott samstarf vera á milli vestnorrænu ríkjanna í ferðamálum.

Færeyingar hafa fundið fyrir fjölgun ferðamanna eins og við Íslendingar. En þeir eru líka staðráðnir í því að gera ekki sömu mistökin og þeir segja Íslendinga hafa gert, að stýra ekki ferðamannastraumnum. Þeir leggja til dæmis mikla áherslu á að gæta að umhverfinu þegar ferðamenn eru annars vegar.

„Það hefur verið jafn og stöðugur vöxtur. Ferðaþjónustan dafnar og gengur vel í Færeyjum,“ segir Theresa Turidardottir, framkvæmdastjóri Visit Thorshavn.

Theresa segir ferðamenn koma alls staðar að úr heiminum en flestir komi frá Norðurlöndunum. Þá hafi verið fjölgun í komu skemmtiferðaskipa en rúmlega fimmtíu skip komi á þessu ári fyrir utan auðvitað alla sem koma með Norrænu. Nokkuð sé um að ferðamenn fari fyrst til Íslands áður en þeir koma til Færeyja.

„Ferðafólk frá Danmörku sem ætlar til Íslands byrjar oft hérna í Færeyjum en það kemur margt ferðafólk frá Íslandi, sérstaklega hefur þeim sem koma á húsbílum fjölgað frá Íslandi.“

Hún segir Færeyinga almennt ekki orðna þreytta á ferðamönnum þrátt fyrir fjölgun á síðustu árum.

„Nei en það er umræða í gangi um ferðamenn, hvort það sé komið nóg af þeim, hvort það borgi sig að taka á móti fleirum, en við tökum ekki enn á móti öllum þeim ferðamönnum sem við gætum. En það er umræða í gangi um ferðamennina og að við ættum að passa að það gerist ekki sama hér og á Íslandi.“

Töluvert samstarf er milli vestnorrænu landanna í ferðamálum.

„Já það hefur alltaf verið samstarf milli Íslands, Grænlands og Færeyja, vestnorrænu landana, það hefur alltaf verið. Við vinnum vel saman. Við vinnum að nokkrum verkefnum með Íslandi og Grænlandi um aðkomu fatlaðs ferðafólks. Já, þetta er gott samstarf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×