Enski boltinn

Iheanacho á leið til Leicester

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kelechi Iheanacho fagnar marki með Manchester City.
Kelechi Iheanacho fagnar marki með Manchester City. Vísir/Getty
Kelechi Iheanacho virðist vera á leið til Leicester ef marka má fréttir í Englandi en hann gekkst undir læknisskoðun hjá félaginu í gær.

Fullyrt er að Leicester greiði 25 milljónir punda fyrir nígeríska sóknarmanninn. Samkvæmt frétt Telegraph hefur verið talsverð bið á að kaupin gangi í gegn vegna deilna við umboðsmenn Iheanacho um markaðsrétt á ímynd hans.

Hann er aðeins 20 ára gamall og hefur skorað tólf mörk í 46 leikjum fyrir Manchester City. Hann gekk í raðir félagsins árið 2014 og spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið City í ágúst árið 2015.

Sjá einnig: Shakespeare vill fá Iheanacho til Leicester City

Telegraph greinir enn frekar frá því að City hafi sett klásúlu í samninginn sem gerir félaginu kleift að kaupa leikmanninn til baka á 50 milljónir punda á samningstímanum.

Tottenham, West Ham og Monaco munu einnig hafa haft áhuga á kappnum en Leicester hafði betur í kapphlaupinu um sóknarmanninn unga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×