Handbolti

Dagur: Vil að Japan eignist alvöru landslið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan, er nú mættur hingað til lands og mun vera með lið sitt í æfingabúðum á Íslandi næstu tvær vikurnar.

Dagur sló í gegn sem þjálfari þýska landsliðsins og gerði liðið óvænt að Evrópumeisturum í fyrra og vann til bronsverðlauna með því á Ólympíuleikunum í Ríó. En svo hætti hann skyndilega og tók við landsliði Japan, sem hann mun stýra til 2024.

Hann ræddi við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta hefur gengið stórvel. Ég hef verið í fjórar vikur í Tókýó við æfingar. Við fengum íslenska stráka meðal annars til að æfa með liðinu í tvær vikur til að gefa þeim meiri reynslu gegn öðrum leikmönnum,“ sagði Dagur.

„Svo erum við í tvær vikur hér heima og spilum mikið af æfingaleikjum.“

Dagur var ánægður með að hans menn hafi náð jafntefli við Suður-Kóreu skömmu áður en landsliðið hélt til Íslands.

„Það er gott að fá jákvæð úrslit eftir langa æfingatörn. Það gefur strákunum sjálfstraust og þeir sjá að þetta er vonandi að færast í rétta átt.“

„Japan hefur aldrei náð að vinna Suður-Kóreu þegar þeir hafa verið með sitt sterkasta lið. Þetta var því skref í rétta átt.“

Ólympíuleikarnir fara fram í Tókýó árið 2020 og Degi er ætlað að mæta með sterkt japanskt handboltalið til leiks.

„Ég horfi þó lengra en það. Ég vil byggja upp lið til framtíðar. Við viljum verða samkeppnishæfir eftir þrjú ár, þegar Ólympíuleikarnir fara fram, en langtímamarkmiðið er að Japan eigi alvöru landslið.“

Dagur segir að það sé ágætur grunnur í japönskum handbolta en að leikmenn skorti helst reynslu af alþjóðlegum handbolta. Hann vill því nýta tímann vel og spilar sjö æfingaleiki hér á landi á þeim tveimur vikum sem að lið hans dvelur hér.

Viðtal Guðjóns má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira