Viðskipti innlent

Afstaða bankaráðs mun liggja fyrir síðar í sumar

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Bankaráð Landsbankans hefur tekið erindi Vestmannaeyja til skoðunar.
Bankaráð Landsbankans hefur tekið erindi Vestmannaeyja til skoðunar. vísir/andri marinó
Bankaráð Landsbankans hefur tekið til skoðunar erindi Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar þar sem kallað er eftir afstöðu bankaráðsins til aðgangs dómkvaddra matsmanna að nauðsynlegum gögnum til að hægt sé að meta virði stofnfjár í Sparisjóði Vestmannaeyja.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðsins, segir að afstaða bankaráðsins til málsins muni liggja fyrir síðar í sumar.

Bæjarráð Vestmannaeyja hvatti í síðustu viku bankaráðið til þess að tryggja að starfsmenn Landsbankans kæmu ekki í veg fyrir að fram færi trúverðugt mat á því hvert verðmæti stofnfjár sparisjóðsins var þegar bankinn tók sjóðinn yfir í mars 2015. Fyrrverandi stofnfjáreigendur í sparisjóðnum, þar á meðal Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin, telja að á þá hafi verulega hallað þegar bankinn tók yfir rekstur sjóðsins.

Þeir fengu dómkvadda matsmenn til þess að leggja mat á verðmæti þess endurgjalds sem þeir fengu við yfirtökuna, en Landsbankinn synjaði matsmönnunum um þau gögn sem þeir óskuðu eftir með vísan til bankaleyndar.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, sagðist í samtali við Fréttablaðið vilja að bankinn sýndi lágmarkssanngirni og afhenti nauðsynleg gögn til þess að umrætt mat gæti farið fram. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×