Innlent

Formaður Ungra Framsóknarmanna í Reykjavík: „Hún virðist bara vera vitlaus“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina. Framboð hennar var sagt hafa gert andstöðu við múslima að sínu helsta baráttumáli.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina. Framboð hennar var sagt hafa gert andstöðu við múslima að sínu helsta baráttumáli. Vísir/Valli
Ragnar Rögnvaldsson, formaður Sigrúnar, Félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík, segir Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita borgarstjórnarflokks Framsóknar og flugvallarvina, ekki vera í takti við flokkssystkini sín.

Ummæli Sveinbjargar um að það felist „sokkinn kostnaður“ í því fyrir Reykjavíkurborg að taka við börnum hælisleitenda í grunnskóla borgarinnar hafa vakið hörð viðbrögð. Til að mynda hefur Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, annar borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina gagnrýnt ummælin.

Samband ungra framsóknarmanna hefur mótmælt ummælunum og þá hefur stjórn Sigrúnar lýst yfir vantrausti á Sveinbjörgu Birnu.

„Undanfarin misseri hefur Sveinbjörg Birna sem oddviti borgarstjórnarflokks Framsóknar og Flugvallarvina, talað fyrir ákveðnum hugmyndum og þar með nýrri stefnu borgarstjórnarflokks Framsóknar og Flugvallarvina. Ungir Framsóknarmenn í Reykjavík telja að þær hugmyndir og sú stefna sem Sveinbjörg Birna talar fyrir, gangi í berhögg við grunnstefnu Framsóknarflokksins,“ segir meðal annars í tilkynningu frá stjórn Sigrúnar.

 

„Hún er raunverulega ekki í neinum takti við samstarfsfólkið,“ segir Ragnar Rögnvaldsson, formaður Sigrúnar, en rætt var við Ragnar í þættinum Harmageddon á X-inu í morgun.

„Það fer að styttast í það að það verði skipaðir listar og við viljum setja pressu á að hún verði ekki þar í forystusæti.“

Hann segir að ítrekað hafi verið rætt við Sveinbjörgu og hún beðin um að tjá sig ekki á niðrandi hátt um ákveðna samfélagshópa.

„Það var gert í moskumálinu, Ungir Framsóknarmenn á landsvísu stigu fram um daginn. Þannig það er alveg búið að biðja hana um að róa sig, en hún virðist bara ekki taka neinum rökum.“

Myndirðu segja að hún sé alveg stjórnlaus?

„Kannski ekki alveg stjórnlaus, en svo ég noti bara hreina íslensku, hún virðist bara vera vitlaus.“

Viðtalið við Ragnar má heyra í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×