Erlent

Zuma stóð af sér vantrauststillögu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá þinginu í Pretori í Suður-Afríku.
Frá þinginu í Pretori í Suður-Afríku. Vísir/EPA
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, stóð af sér vantrauststillögu á þinginu í dag. Þetta er í áttunda sinn sem kosið er um slíka tillögu gegn forsetanum, en í fyrsta sinn sem atkvæðagreiðslan er leynileg. Stjórnarandstaðan vonaðist til þess að þingmenn ANC flokksins, sem Zuma tilheyrir, myndu styðja vantraustið af því að kosningin var leynileg.

198 þingmenn voru andsnúnir tillögunni og 177 studdu hana.

Til þess að tillagan hefði verið samþykkt þyrftu minnst 50 þingmenn ANC að styðja hana. Það gekk ekki eftir en þó studdu minnst 26 þingmenn flokksins tillöguna, samkvæmt frétt BBC. Níu þingmenn sátu hjá.



Hinn 75 ára gamli Zuma hefur ítrekað verið sakaður um spillingu á átta ára forsetatíð sinni.

Samkvæmt frétt Reuters er kreppa í Suður-Afríku. Þá var lánshæfimat ríkisins nýverið lækkað í ruslflokk af tveimur af þremur helstu matsfyrirtækjum heimsins. Atvinnuleysi er 27,7 prósent og hefur ekki verið hærra í fjórtán ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×