Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir eignast 46% í HS Orku

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Markaðsvirði HS Orku er um 54 milljarðar króna. VÍSIR/Valli
Markaðsvirði HS Orku er um 54 milljarðar króna. VÍSIR/Valli vísir/valli
Eignarhlutur íslenskra lífeyrissjóða í HS Orku mun aukast um 12,7 prósent og verða 46,1 prósent. Þetta varð ljóst í lok síðustu viku þegar samkomulag náðist á milli fagfjárfestasjóðsins ORK, sem er að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða, og Magma Energy, dótturfélags kanadíska orkufélagsins Alterra. Samkomulagið varðar uppgjör á skuldabréfi sem Magma gaf út við kaup á hlut sínum í HS Orku árið 2009.

Samkomulagið felur það í sér að ORK mun yfirtaka 12,7 prósenta hlut Magma í HS Orku á genginu 6,97 krónur á hlut, sem þýðir að verðmæti eignarhlutarins nemur um 6,9 milljörðum króna.

Hlutur Magma mun minnka úr 66,6 prósentum í 53,9 prósent, en fyrir eiga fjórtán lífeyrissjóðir 33,4 prósenta hlut í HS Orku í gegnum félagið Jarðvarma. Íslenskir lífeyrissjóðir munu því samtals eignast 46,1 prósent í félaginu að virði 25,2 milljarða króna.

Yfirtaka ORK á hlut Magma er þó háð því að stjórn HS Orku eða aðrir hluthafar félagsins nýti ekki forkaupsrétt sinn að hlutnum. Magma hefur þegar fallið frá forkaupsrétti sínum og þá hafa stjórnarmenn í HS Orku, sem tilnefndir eru af sænska félaginu, skuldbundið sig til að greiða ekki atkvæði með nýtingu forkaupsréttarins fyrir hönd félagsins. Enn er hins vegar óvíst hvort Jarðvarmi nýti forkaupsrétt sinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×