Innlent

Aldrei ætlunin að nota myndirnar til að selja kjóla

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hér sést Björt í kjól Galvan á Instagram hönnunarmerkisins.
Hér sést Björt í kjól Galvan á Instagram hönnunarmerkisins. Mynd/Skjáskot af Instagram
Tilgangurinn með myndum af Björtu Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra í kjól frá Galvan London í þingsal var aldrei að selja kjóla „út í hinum stóra heimi.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Sólveigu Káradóttur, einum stofnanda Galvan London, sem Vísir hefur undir höndum.

„Hugmyndin var sú að nota GalvanLondon til þess að þjóna íslenskum konum, ekki íslenska konu til þess að þjóna GalvanLondon, með því að sýna heiminum hvernig íslenskar konur geta risið til valda í okkar kyrkingslegu stjórnmálum þrátt fyrir æsku og fegurð,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Sólveigu.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Björt hafi látið mynda sig í kjól frá fyrirtækinu breska fyrirtækinu Galvan, en Sólveig Káradóttir er góð vinkona hennar. Fréttin vakti mikla athygli og hafa ýmsir orðið til að gagnrýna ráðherra fyrir að vera á afar gráu siðferðilegu svæði með því að misnota aðstöðu sína og auglýsa varning fyrir vinkonu sína á vettvangi hins háa Alþingis.

Björt hefur í tvígang í dag beðist afsökunar á málinu.

Tilkynning Sólveigar í heild sinni: 

Fyrir nokkrum árum stofnaði ég ásamt vinkonum mínum tveimur tískufyrirtæki sem heitir GalvanLondon sem hannar og býr til fínan klæðnað á konur. Vörur frá fyrirtækinu eru nú í um það bil 70 þekktustu tískuvöruverslunum heims og myndir af frægum konum beggja vegna Atlantshafsins klæddar í fötin okkar birtast reglulega í heimspressunni.

Þegar við Björt Ólafsdóttir vinkona mín og ráðherra létum taka af henni myndir í einum af kjólunum okkar í salarkynnum Alþingis var hugmyndin aldrei sú að nota þær til þess að selja kjóla út í hinum stóra heimi vegna þess að þrátt fyrir ótrúlega mikla verðleika hefur hún líklega ekki það til að bera sem selur kjóla utan Íslands sem er ekki á markaðssvæði GalvanLondon.

Hugmyndin var að sýna heiminum íslenska konu sem sameinar það að vera ung og falleg og glæsileg og sterk og gáfuð og kjarkmikil, sýna heiminum konu sem hefur sýnt langt nef þeim karlrembukúltúr sem ríður röftum í íslenskum stjórnmálum. Hugmyndin var sú að nota GalvanLondon til þess að þjóna íslenskum konum, ekki íslenska konu til þess að þjóna GalvanLondon, með því að sýna heiminum hvernig íslenskar konur geta risið til valda í okkar kyrkingslegu stjórnmálum þrátt fyrir æsku og fegurð.


Tengdar fréttir

Óvenjulegt að ráðherra kynni kjól í sal Alþingis

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, braut ekki reglur með því að sitja fyrir á ljósmynd í þingsal Alþingis fyrir tískuvörumerkið Galvan London. Óvenjulegt að salurinn sé notaður í auglýsingaskyni, segir skrifstofustjóri Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×