Íslenski boltinn

Milos: Af því að hann er sköllóttur þá heldurðu að hann sé reyndur?

Elías Orri Njarðarson skrifar
Milos var sáttur með þrjú stig í kvöld
Milos var sáttur með þrjú stig í kvöld visir/ernir
Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með 2-1 sigur sinna manna á liði Fjölnis á Kópavogsvelli í kvöld.

„Já ég er í rauninni ánægður með þrjú stig. Hvort sem það sé 2-1 eða 5-1, það skiptir í rauninni ekki máli. Strákarnir eru að spara sig margir fyrir næsta leik, þannig ég er bara ánægður,“ sagði Milos

Breiðablik var miklu meira með boltann og áttu nokkur góð færi í leiknum.

„Mér finnst við stjórna leiknum frá upphafi til enda en þegar það er spilað svona þá er náttúrurlega mikið pláss á bakvið okkur og þeir reyna að ná að skora úr hröðum sóknum en ná ekki að skora úr því, heldur ná að skora í eiginlega eina einbeitingaleysinu í okkur og skora flott mark. Þetta var mjög erfiður leikur og ég er bara mjög ánægður með að hafa fengið þrjú stig,“ sagði Milos sáttur.

Kristinn Jónsson, gekk til liðs við Blika á dögunum úr atvinnumennsku í Noregi. Kristinn kemur með góða reynslu inn í lið Blika og er hann því góður styrkur fyrir liðið.

„Þú heldur af því að hann er sköllóttur að hann sé reyndur?“ segir Milos og brosir. „Hann er reyndur, reyndari en mennirnir sem við erum með. Hann er góður liðsstyrkur ekki spurning. Hann er samt kannski ekki alveg í leikformi, hann er í góðu líkamlegu formi en ekki í leikformi, við vissum það, það sama á við um Svein Aron en ég veit nákvæmlega hvað þessir tveir leikmenn geta og allir hinir sem eru komnir þannig að ég hugsa að við verðum bara betri með fleiri leikjum,“ sagði Milos.

Hrvoje Tokic var ekki í leikmannahópi Blika í dag en hann hefur verið að glíma við meiðsli.

„Það eru einhver skrítin meiðsli. Einhver bólga í kringum bein sem myndi valda meira veseni ef hann myndi spila. Hann var að detta inn á æfingar en var ekki klár í hópinn í dag, en ég vona að hann verði kominn fyrir næsta leik,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, að lokum eftir 2-1 sigur sinna manna á Fjölni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×