Innlent

Jarðskjálftinn í Eyjahafi: Oddný og fjölskylda vöknuðu upp við skjálftann

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir og Gissur Sigurðsson skrifa
Minnst tveir eru látnir eftir jarðskjálftann. Oddný segir að þeim hafi brugðið töluvert við skjálftann. Þá séu einnig búnir að vera margir eftirskjálftir.
Minnst tveir eru látnir eftir jarðskjálftann. Oddný segir að þeim hafi brugðið töluvert við skjálftann. Þá séu einnig búnir að vera margir eftirskjálftir. Vísir/AFP
„Það nötrar enn mikið. Hér eru búnir að vera óteljandi eftirskjálftar og margir stórir,“ segir Oddný Arnarsdóttir, sem stödd er á grísku eyjunni Kos ásamt fjölskyldu sinni. Eyjan kom illa undan jarðskjálfta sem átti upptök sín tólf kílómetrum norðaustur af eyjunni. Minnst tveir eru taldir látnir.

Jarðskjálftinn reið yfir klukkan hálf ellefu í gærkvöldi eða klukkan tvö um nótt að staðartíma og var 6,7 að stærð. Um tíu Íslendingar eru á svæðinu. Oddný og fjölskylda hennar vöknuðu upp við skjálftann.

„Þetta var rosalega stór skjálfti og auðvitað bregður manni töluvert við að vakna við svona. Hann stóð lengi yfir og við drifum okkur út og stóðum bara í dyrunum eins og manni var einhvern tímann kennt að gera í jarðskjálfta. Svo voru allir kallaðir út úr öllum íbúðum á hótelinu og öllum herbergjum og allir settir hér út á götu á svona öruggt svæði, “ segir Oddný í samtali við fréttastofu.

Aðspurð hvort það hafi hvarflað að þeim að þetta tengdist hryðjuverkum svarar Inga því neitandi og segir að það hafi verið ljóst að um jarðskjálfta var að ræða. Nokkur ummerki sjást á hótelinu eftir skjálftann. Sjá má sprungur í herbergjunum, þá hafi gangstéttir og hellur brotnað í sundlaugargarðinum. Sundlaugin sjálf laskaðist einnig.

„Það er einhver eyðilegging hérna og svo er náttúrulega mikil eyðilegging hérna niðri í bænum,“ segir Oddný sem segir að fólk hafi hafst við út á götum á meðan að verið var að skoða málin. Þar hafi fólk getað lagt sig á sólbekkjum og þeim var séð fyrir veitingum.

Oddný segir að verið sé að fara yfir stöðuna og þau séu hugsi yfir því hvort þau færi sig um set í fríinu. Allir séu enn mjög hvekktir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×