Erlent

Ræða mögulega nafnabreytingu á Þjóðfylkingunni

Atli Ísleifsson skrifar
Marine Le Pen beið lægri hlut gegn Emmanuel Macron í frönsku forsetakosningunum í vor.
Marine Le Pen beið lægri hlut gegn Emmanuel Macron í frönsku forsetakosningunum í vor. Vísir/AFP
Helstu leiðtogar frönsku Þjóðfylkingarinnar koma saman í dag og á morgun í úthverfi Parísar til að ræða hvernig best sé að bregðast við ósigrum flokksins í nýlegum forseta- og þingkosningum í Frakklandi.

Til umræðu verður möguleg nafnabreyting á flokknum og hvort hverfa eigi frá kröfu flokksins um að taka upp frankann sem gjaldmiðil á nýjan leik.

Formaðurinn Marine Le Pen hét því í kjölfar ósigurs síns gagn Emmanuel Macron í síðari umferð frönsku forsetakosninganna í maí að hún myndi vinna að endurnýjun flokksins. Mánuði síðar náði flokkurinn einungis að tryggja sér átta sæti á franska þinginu í kosningum.

Í frétt Reuters segir að ekki sé búist við að teknar verði neinar tímamótaákvarðanir á fundinum, en að í kjölfar hans verði sendur spurningalisti til flokksmanna og svo haldið flokksþing á næsta ári.

Miklar deilur hafa staðið innan flokksins um stefnu hans í efnahagsmálum og þá sérstaklega andstöðu flokksins við evru. Sú andstaða er vinsæl með hörðustu stuðningsmanna flokksins en höfðar ekki til langstærsta hluta franskra kjósenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×