Erlent

Breskir læknar hætta að skrifa upp á smáskammtalækningar

Atli Ísleifsson skrifar
Yfirmaður breska heilbrigðiskerfisins segir að smáskammtalækningar séu í besta falli lyfleysa og misnotkun á dýrmætu fé ætluðu til heilbrigðiskerfisins.
Yfirmaður breska heilbrigðiskerfisins segir að smáskammtalækningar séu í besta falli lyfleysa og misnotkun á dýrmætu fé ætluðu til heilbrigðiskerfisins. Vísir/Getty
Breskir læknar munu hætta að skrifa upp á smáskammtalækningar og sautján hluti til viðbótar samkvæmt drögum að nýjum viðmiðunarreglum innan breska heilbrigðiskerfisins.

Ástæður þess að hætt verður að skrifa upp á slíkt eru meðal annars að þau eru talin gera lítið gagn og að lítill árangur þeirra svari ekki kostnaði.

Í frétt Guardian segir að hinar nýju reglur séu liður í sparnaðaraðgerðum innan breska heilbrigðiskerfisins (NHS). Með þeim er vonast til að hægt verði að spara rúmlega 190 milljónir punda, um 26 milljarða króna, á ári hverju.

Drögin eru nú til umsagnar almennings. Þar kemur fram að kostnaðurinn við að skrifa upp á smáskammtalækningar hafi numið rúmlega 92 þúsund punda, um 12 milljónir króna, árið 2016 og að minnsta kosti 79 milljónir króna á síðustu fimm árum.

Simon Stevens, yfirmaður NHS, kynnti drögin fyrr í vikunni og sagði smáskammtalækningar, eða hómópatíu, í besta falli vera lyfleysu og misnotkun á fé NHS, sem sé að skornum skammti.

Meðal annara hluta sem hætt verður að skrifa upp á eru ýmis grasalyf, Omega-3 fitusýrur og ýmist smyrsl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×