Skoðun

Einbeittur brotavilji Orkuveitu Reykjavíkur

Orri Hauksson skrifar
Fyrir helgi birtist í Fréttablaðinu yfirlýsing frá stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þar sem blessun er lögð yfir það framferði dótturfélags OR, Gagnaveitu Reykjavíkur, að hafna ýmiss konar samvinnu um grunninnviði, meðal annars að neita að opna svokallaðan passífan aðgang að ljósleiðaraneti sínu. Slíkur aðgangur er þó tryggður almennt í okkar heimshluta neytendum til hagsbóta.

Hin hógværa ósk Símans er í samræmi við stefnu sem hefur verið mörkuð í fjarskiptaáætlun Alþingis og ESB-tilskipun frá 2014, sem er orðin að lögum í fjölda ríkja sambandsins og mun á endanum verða að lögum hér í gegnum EES-samninginn. Tilskipunin opnar opinber fjarskiptanet, ýtir undir samkeppni og val neytenda, skapar svigrúm fyrir nýsköpun og dregur úr tvífjárfestingu í grunninnviðum.

Sá einfaldi aðgangur að innviðunum sjálfum, sem Síminn óskar eftir, er hvarvetna við lýði nema hjá OR. Meðal annars hjá Mílu, Tengi á Akureyri og á netum Hvalfjarðarsveitar og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Á öllum Norðurlöndunum er veittur slíkur aðgangur.

Með samnýtingu framkvæmda og innviða á suðvesturhorninu má fría fjármagn úr offjárfestingu á svæðinu og auka fjárfestingar í innviðum þar sem þeirra er ríkari þörf. Ef Síminn mundi hins vegar undirgangast mónópólískan hugsunarhátt OR um eitt heildarkerfi á höfuðborgarsvæðinu væri Símasamstæðan þar með að ákveða að leggja niður eigin innviðatækni á svæði GR.

Samkeppni og nýsköpun yrði útrýmt í tæknilagi fjarskipta og einn opinber aðili yrði í einokun í innviðum og allri aðgangstækni.

Með framferði sínu fara OR og GR með einbeittum brotavilja gegn stefnumörkun ESB og Alþingis um að stuðla að samkeppni og fjölbreytni í þágu neytenda. Síminn hefur vonast til að koma á samstarfi við GR með þau markmið að leiðarljósi en ekki haft erindi sem erfiði. Er það mjög miður, fyrir notendur fjarskiptaþjónustu á landsvísu. Tíminn, lögin og skynsemin munu til lengri tíma ráða niðurlögum þessarar skammsýni borgarfyrirtækisins. Einfalt væri að sinna öllum Íslendingum mun betur mun fyrr.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×