Erlent

Rannsaka dauða ungs blökkumanns skömmu eftir handtöku

Kjartan Kjartansson skrifar
Upptaka öryggismyndavélar sýnir Charles liggjandi á gólfi verslunar í glímu við lögreglumann.
Upptaka öryggismyndavélar sýnir Charles liggjandi á gólfi verslunar í glímu við lögreglumann. Skjáskot
Íbúar í Austur-London eru reiðir eftir að ungur maður lét lífið skömmu eftir að hann var eltur og handtekinn af lögreglumönnum á aðfaranótt sunnudags. Lögreglan segir að maðurinn hafi reynt að gleypa eitthvað og hafi í kjölfarið veikst.

Lögreglumenn eltu Rashan Charles, tvítugan blökkumann, eftir að þeir höfðu reynt að stöðva bíl í Hackney-hverfinu skömmu fyrir klukkan tvö á aðfaranótt sunnudags.

Á upptöku úr öryggismyndavél í sólahringsverslun sjást lögreglumennirnir handtaka Charles. Sést Charles meðal annars liggjandi á gólfinu með hendur bundnar fyrir aftan bak.

Charles var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi skömmu síðar, að því er kemur fram í frétt The Guardian. Hann er sagður láta eftir sig barn.

Reiðir og áhyggjufullir vegna dauða Charles

Sjálfstæð eftirlitsnefnd með störfum lögreglunnar rannsakar nú dauða Charles. Talsmaður hennar segir að aðskotahlutur hafi verið fjarlægður úr koki hans á vettvangi. Á upptökunni virðist Charles stinga einhverju upp í sig.

Scotland Yard segir að lögreglumennirnir hafi reynt að koma í veg fyrir að Charles skaðaði sjálfan sig. Honum hafi verið veitt fyrsta hjálp á staðnum.

Baráttumenn gegn kynþáttahatri í Hackney hafa boðað vöku fyrir utan lögreglustöð í dag en þeir segjast hafa áhyggjur og séu reiðir vegna kringumstæðna dauða Charles.

Þeir segja að dauði Charles sé aðeins enn eitt tilfellið þar sem ungir blökkumenn falli fyrir hendi lögreglumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×