Innlent

Vafaatriði hvort að samþykki starfsmanna sé til staðar

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Færst hefur í aukana að fyrirtæki láti framkvæma vímuefnaskimanir á starfsfólki sínu.
Færst hefur í aukana að fyrirtæki láti framkvæma vímuefnaskimanir á starfsfólki sínu. Mynd/Getty
„Það hefur gerst alloft að Persónuvernd hafi borist erindi og fyrirspurnir varðandi [vímuefnaskimanir],“ segir Þórður Sveinsson, skrifstofustjóri lögfræðisviðs Persónuverndar. „Ég tel mig nú ekki vera var við aukningu en erindi sem þessi hafa vissulega borist reglulega.“ 

Greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að talsverð aukning hefur orðið á því að fyrirtæki hafi samband við Öryggismiðstöðina og óski eftir vímuefnaskimun fyrir starfsmenn. 

Sjá: „Fleiri fyrirtæki farin að kanna vímuefnanotkun starfsmanna“

Þórður segir að ef að vinnuveitandi vilji kalla starfsmann sinn í skimun þurfi að vera haldbær og málefnaleg ástæða fyrir því. „Það sem þar gildir er kannski fyrst og fremst tvennt. Í fyrsta lagi má leiða að því líkur að vinnuveitandi sem vill gera þetta þurfi að hafa eitthvað tilefni, það þarf að vera málefnaleg ástæða sem tengist eðli viðkomandi starfs,“ segir hann.

Þá segir hann að til staðar þurfi að vera fullnægjandi lagagrundvöllur og bendir á að í íslensku stjórnarskránni sé dómsúrskurður eða sérstök lagaheimild forsenda líkamsrannsókna. 

„Síðan má sjálfsagt bæta þarna við samþykki starfsmanns þó að það sé ekki beinlínis orðað í stjórnarskránni en á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins þá hlýtur hann að geta sjálfur samþykkt eitthvað.“ 

Þórður Sveinsson, skrifstofustjóri lögfræðisviðs Persónuverndar, segir að málefnaleg ástæða þurfi að vera undanfari vímuefnaskimunar.Mynd/Valli
Þórður segir það svo spurningu hvort að líta megi svo á að ákveðið samþykki liggi þegar fyrir í vinnuréttarlegum skilningi þar sem að ákveðin hlýðnisskilda hvíli á launþega og að vinnuveitandi hafi boðvald upp að ákveðnu marki.

„Þannig að það kann að vera í vafa undirorpið hvort samþykki sé í raun og veru til staðar,“ segir hann. „Í íslenskum lögum er ekki að finna sérstakt ákvæði almennt um vímuefnapróf á vinnustöðum. Það eru vissulega til ákvæði um ákveðnar starfsstéttir til dæmis flugmenn. En þá er spurningin hvort að þetta sé heimilt.“

Árið 2013 gaf Persónuvernd út álit er varðar vímuefnaskimun á vinnustöðum. Þar var litið til tveggja ákvarðana frá Mannréttindadómstólnum í Evrópu er varðaði tvö skimunartilfelli í Danmörku og Svíþjóð sem voru kærð til dómstólsins.

Sjá: „Álit um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við gerð vímuefnaprófa“

„Mannréttindadómstóllinn komst raunar að þeirri niðurstöðu að vímuefnaprófin væru í lagi og hann mat þetta raunar út frá tvennu. Annarsvegar því hvort að í þessum tilfellum hafi verið nægilega ríkt tilefni og hins vegar hvort að þetta byggðist á lögum sem er skilyrði samkvæmt mannréttindasáttmálanum,“ segir Þórður en dómurinn hafi metið sem svo í þessum tilfellum að störf þeirra sem kærðu voru þess eðlis að eðlilegt þótti að skima eftir vímuefnum í öryggisskyni. Þá hafi dómstóllinn litið svo á að kjarasamningar í Danmörku og Svíþjóð hafi jafnast á við lög í skilningi mannréttindasáttmálans.

„Ef við reynum að færa þetta í íslenskt samhengi þá er spurningin sú hvort til dæmis væri hægt að mæla fyrir um vímuefnapróf í kjarasamningum,“ segir Þórður. „Sjálfsagt þyrfti að vera eitthvað tilefni til að einhverjar starfsstéttir þyrftu að sæta þessu. Þá má einnig velta því upp hvort að það þurfi að vera heimild fyrir þessu í lögum miðað við hvernig stjórnarskrárákvæðið er orðað,“ en hann segir íslensku stjórnarskrána innihalda ströng skilyrði fyrir líkamsrannsóknum á meðan sú danska gerir til dæmis ekki kröfu um lagaheimild fyrir líkamsrannsóknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×