Innlent

Menn bjóða húsaskjól gegn kynlífi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Fjallað hefur verið um aðstæður Sigrúnar Dóru sem er fjögurra barna móðir í Reykjanesbæ og húsnæðislaus. Engin úrræði voru í boði frá Reykjanesbæ önnur en þau að taka börnin hennar í fóstur til að forða þeim frá götunni.

Sigrún hefur aftur á móti fengið gífurlega góð viðbrögð frá bæjarbúum sem hafa rætt málið á samfélagsmiðlum og krefjast aðgerða frá bæjaryfirvöldum. Hún fagnar umræðunni enda margir í hennar sporum.

„Lausnirnar eru ekki margar. En fólk er að átta sig á því að það þarf að standa saman, tala saman og gera eitthvað. Ekki bara yppa öxlum og segja það er ekkert sem við getum gert," segir Sigrún.

Fólk hefur líka sett sig í samband við Sigrúnu og boðið henni aðstoð sína.

„Það voru tveir aðilar sem höfðu samband strax eftir fréttina á laugardag. Eldri kona sem sagðist vera að fara til útlanda og vildi leyfa mér að vera í íbúðinni sinni. Og maður sem er mikið á sjó og vildi láta mig fá íbúðina, að hann gæti bara verið í húsbílnum þegar hann er í landi. Þetta er ótrúlegt."

En Sigrún hefur líka fengið ósæmileg tilboð.

„Menn sem sáu ástæðu til að svala kynferðislegum losta sínum á neyð minni. Þeir hafa boðið mér húsnæði, boðið mér ýmislegt, gegn kynlífi."

Það var svo í dag sem leigusali hafði samband við Sigrúnu.

„Og það er neglt í dag. Við erum komin með íbúð frá 24. ágúst."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×