Innlent

Afar slæmt veður á K2 hjá John Snorra og félögum: „Við komumst ekkert út úr tjöldunum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
John Snorri er nú fastur í búðum 3 á K2 en stefnir engu að síður enn ótrauður á toppinn.
John Snorri er nú fastur í búðum 3 á K2 en stefnir engu að síður enn ótrauður á toppinn. líf styrktarfélag
John Snorri Sigurjónsson, sem stefnir á að verða fyrsti Íslendingurinn til að klífa næsthæsta fjall heims, K2, er eins og stendur fastur í búðum þrjú á fjallinu vegna afar slæms veðurs. Svo slæmt veður er nú á fjallinu að ekki er hægt að fara út úr tjöldunum í búðunum.

Hópurinn sem hann gengur með er nú eini hópurinn sem er eftir í fjallinu af þeim sem ætluðu að reyna við toppinn síðar í vikunni og þá hafa tveir í hóp John Snorra einnig hætt við.

„Mér líður ágætlega en vandamálið er að það er svo vont veður að við komumst ekki hærra sem stendur í fjallinu. Veðurglugginn er þannig að við ætluðum að reyna að toppa 27. júlí og ástandið er þannig að ef við komumst ekki upp í búðir fjögur á morgun þá gæti þetta orðið ansi erfitt,“ segir John Snorri í samtali við fréttastofu frá búðum þrjú á K2.

Það ræðst því í raun á næsta sólarhring hvort að hópurinn komist á toppinn.

„Tveir í hópnum hjá mér eru hættir við; einn fékk háfjallaveiki og er farinn niður og annar komst ekki lengra. Aðrir hópar í fjallinu eru allir hættir við erum fimm hérna eftir sem ætlum ennþá að reyna við toppinn og erum mjög spennt að reyna að klára verkefnið.“

En veðrið er sem sagt mjög slæmt?

„Já, það er mjög slæmt veður og við komumst ekkert út úr tjöldunum. Eina sem við getum gert er að fara út úr tjöldunum til að laga þau. Það fer nú samt ekki illa um okkur hérna,“ segir John Snorri.

Aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að hann nái topp K2 á fimmtudag eins og hann stefnir að segir hann:

„Ef þetta tekst þá verður þetta mikil pressa af því við getum þá ekki lagt af stað fyrr en á morgun upp í búðir fjögur. Það verður þá mikill hraði á okkur og mikil vaka og mun reyna mikið á alla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×