Innlent

Gagnrýnir barnavernd: „Af hverju eru börnin tekin frá mér til þess að koma þeim í fóstur og skilja mig eftir á götunni?“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Nú er svo komið að húsnæði sem Helga leigir hefur verið selt og hefur hún til mánaðamóta til að finna nýtt húsnæði.
Nú er svo komið að húsnæði sem Helga leigir hefur verið selt og hefur hún til mánaðamóta til að finna nýtt húsnæði. Helga
Helga Jóhannesdóttir er einstæð tveggja barna móðir sem er búsett í Reykjanesbæ. Helga hefur búið í bænum síðan árið 2014. Nú er svo komið að húsnæði sem hún leigir hefur verið selt og hefur hún til mánaðamóta til að finna nýtt húsnæði.

Barnavernd Reykjanesbæjar er komin í málið og hefur gefið henni um það bil viku að finna samastað fyrir sig og börnin ella verði þau send í fóstur um tíma.

„Það fékk á mig, af hverju eru börnin tekin frá mér til þess að koma þeim í fóstur og skilja mig eftir á götunni. Hvað er rétt við það?“ segir Helga í samtali við Vísi sem segir sitt markmið vera að huga að heilsu barnanna og öryggi.

Engin óregla

Helga segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hún lendi í því að vera húsnæðislaus. Engin óregla sé á heimilinu og börnunum líði vel. Börnin eru sex og sjö ára gömul.

Enn hefur ekkert húsnæði fengist en Helga hefur verið að leita síðan í apríl. Þá hefur hún reynt að leita til leigufélagsins Heimavalla, en hefur ávallt verið hafnað þar sem hún hafi ekki haft bankaábyrgð vegna gamalla skulda sem hún hélt að búið væri að greiða úr.

Helgu blöskrar ákvarðanataka Barnaverndar og finnst skrítið að ekki sé fremur reynt að hjálpa henni að fá íbúð fyrir þau þrjú í stað þess að aðskilja fjölskylduna. Þetta er í fyrsta sinn sem Barnavernd hafi afskipti af þeirra málum.

Húsnæðismál á Reykjanesi hafa verið töluvert í umræðunni í fréttum undanfarið. Stöð 2 fjallaði nýverið um málefni einstæðrar móður sem missti húsnæði sitt í Reykjanesbæ. Engin úrræði voru í boði frá bænum önnur en þau að taka börnin hennar í fóstur til að forða þeim frá götunni. 

Ekki náðist í Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar við gerð þessarar fréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×