Erlent

Drap eiginkonuna því hún hló að honum

Kjartan Kjartansson skrifar
Skemmtiferðaskipið Emerald Princess var við strendur Alaska þegar konunni var ráðinn bani. Myndin er úr safni.
Skemmtiferðaskipið Emerald Princess var við strendur Alaska þegar konunni var ráðinn bani. Myndin er úr safni. Vísir/EPA
Karlmaður er grunaður um að hafa ráðið eiginkonu sinni bana um borð í skemmtiferðaskipi við Alaska. Vitni segir að maðurinn hafi drepið konuna vegna þess að hún hætti ekki að hlæja að honum.

Lík konunnar fannst í káetu þeirra hjóna. Miklir höfuðáverkar voru á því. Maðurinn hefur verið ákærður fyrir morðið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Vitni sem kom inn í káetuna á undan öryggisvörðum segist hafa séð manninn draga lík konunnar í átt að svölum káetunnar. Vitnið greip hins vegar í ökkla konunnar og togaði hana aftur inn.

Þegar vitnið spurði manninn hvað hefði gerst á hann að hafa sagt: „Hún vildi ekki hætta að hlæja að mér“.

Atburðurinn átti sér stað um borð í skemmtiferðaskipinu Emerald Princess á þriðjudagskvöld. Maðurinn, sem er 39 ára gamall eins og eiginkonan var, er sagður hafa sagt alríkislögreglumönnum að lífi hans væri lokið. Hann var handtekinn þegar öryggisverðirnir sáu blóð á höndum hans og fötum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×