Erlent

Hryðjuverk eða misheppnað rán?

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmargir vopnaðir lögregluþjónar eru á svæðinu.
Fjölmargir vopnaðir lögregluþjónar eru á svæðinu. Vísir/EPA
Einn er látinn og fjórir særðir eftir að maður vopnaður hnífi réðst á aðra í matvöruverslun í Hamborg í dag. Árásarmaðurinn mun hafa verið einn að verki og hefur verið handtekinn en lögreglan segir of snemmt að segja til um hvert tilefni árásarinnar var. Almennir borgarar yfirbuguðu árásarmanninn, en óvíst er hvort að um hryðjuverk hafi verið að ræða eða misheppnað rán.

Samkvæmt frétt BBC hafa borist óstaðfestar fregnir af því að maðurinn hafi öskrað: „Allahu akhbar“, eða „Guð er mikill“. Þá hafa einnig borist fregnir af því að um misheppnað rán sé að ræða. Lögreglan segir árásarmanninn heita Ahmed A. og vera 26 ára gamlan. Hann er hælisleitandi sem haldið hefur til í Hamborg. Ekki hafa fundist vísbendingar um tilefni árásarinnar.



Talið er að maðurinn hafi verið vopnaður venjulegum hnífi sem fyrirfinnst í hverju eldhúsi. Hann réðst á fólk af handahófi inn í versluninni og hljóp svo út þar sem hann var yfirbugaður.

Maðurinn sem dó var 50 ára gamall og þau sem særðust voru á aldrinum 19 til 64.

Mikið er um vopnaða lögregluþjóna á svæðinu og munu sérsveitarmenn vera meðal þeirra.

Nokkrar hryðjuverkaárásir hafa verið gerðar í Þýskalandi á síðustu árum og áætlar leyniþjónusta Þýskalands að um tíu þúsund öfgamenn séu í landinu. Þar ef séu 1.600 sem teljast líklegir til að grípa til ofbeldis, samkvæmt frétt The Local.



Um jólin ók maður í gegnum jólamarkað í Berlín og myrti tólf. Íslamska ríkið lýsti yfir ábyrgð á árásinni. Samtökin lýstu einnig yfir ábyrgð á tveimur öðrum árásum í fyrra. Í annarri særðust fimmtán í sprengjuárás í Ansbach og í hinni særði árásarmaður fimm með exi í lest í Bæjarlandi. Sá var svo skotinn til bana af lögreglu.

Uppfært 19:45: Upplýsingum bætt við um uppruna árásarmannsins og fórnarlömbin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×