Erlent

Trump kominn með mótframbjóðanda

Samúel Karl Ólason skrifar
John Delaney og Donald Trump.
John Delaney og Donald Trump. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er kominn með mótframbjóðanda í forsetakosningunum 2020. Þingmaðurinn John Delaney tilkynnti í dag að hann ætlaði að bjóða sig fram, en rúmlega 1.100 dagar eru þar til kosningarnar fara fram. Delaney er fyrsti demókratinn til að tilkynna framboð sitt, en Trump boðaði framboð sitt með formlegum hætti, einum degi eftir að hann tók við embætti í janúar.

Samkvæmt frétt Reuters er hefð fyrir því að framboð séu tilkynnt kosningar sem fara fram við mitt kjörtímabil forseta. Að þessu sinni verða þær haldnar í nóvember 2018.



„Núverandi ríkisstjórn hefur dregið úr velmegun og öryggi okkar,“ sagði Delaney í grein sem hann skrifaði á vef Washington Post í dag. Hann sagði klúður Repúblikanaflokksins varðandi heilbrigðiskerfið einungis vera nýjasta dæmið um skaðlega flokkshyggju repúblikana. Hann segist ætla að draga Bandaríkin upp úr skotgrafahernaði í stjórnmálum, stýra eftir staðreyndum og undirbúa ríkið fyrir framtíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×