Körfubolti

Strákarnir leiddu í 35 mínútur en töpuðu samt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason skoraði níu stig og tók sjö fráköst.
Tryggvi Snær Hlinason skoraði níu stig og tók sjö fráköst. vísir/ernir
Íslenska körfuboltalandsliðið skipað leikmönnum 20 ára og yngri fór illa að ráði sínu gegn Spánverjum á æfingamóti á Krít í dag. Lokatölur 73-67, Spáni í vil.

Þetta var fyrsti leikur Íslands á mótinu. Á morgun mætir íslenska liðið því gríska og á miðvikudaginn því ítalska. Mótið er liður í undirbúningi fyrir keppni í A-deild Evrópumótsins sem hefst á laugardaginn.

Ísland var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og var 16 stigum yfir að honum loknum, 27-43.

Í seinni hálfleik tók sterkt lið Spánar völdin og hélt Íslendingum í aðeins 24 stigum. Spánverjar unnu 3. leikhlutann með 15 stigum, 25-10, og sigu svo fram úr undir lokin og tryggðu sér sex stiga sigur, 73-67.

Spánn var aðeins yfir í tæpar tvær mínútur í leiknum. Á meðan leiddi Ísland í rúmar 35 mínútur.

Ingvi Þór Guðmundsson var stigahæstur í íslenska liðinu. Grindvíkingurinn skoraði 22 stig og tók auk þess fjögur fráköst.

Breki Gylfason skoraði 15 stig og tók fimm fráköst og Tryggvi Snær Hlinason skoraði níu stig og tók sjö fráköst.

Tapaðir boltar fóru illa með íslenska liðið í leiknum en það tapaði boltanum alls 30 sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×