Erlent

Staðhæfa að Baghdadi sé allur

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Bakr al-Baghdadi
Abu Bakr al-Baghdadi Vísir
Samtökin Syrion Observatory for Human Rights segja Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga Íslamska ríkisins vera dáinn. Fyrir þessu séu staðfestar heimildir, en hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna geta ekki staðfest fregnirnar. Sömu sögu er að segja af yfirvöldum Írak og Kúrdum.

Baghdadi hefur margsinnis verið talinn látinn. Heimildir SOFHR hafa hins vegar ítrekað reynst trúverðugar í styrjöldinni í Sýrlandi.

Samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar segir Rami Abdulrahman, yfirmaður SOFHR, að upplýsingarnar hafi fengist frá háttsettum meðlimum samtakanna. Heimildarmennirnir eru sagðir hafa verið í Deir al-Zor í Sýrlandi en þeir sögðu ekki hvenær Baghdadi hefði verið felldur.

Sjá einnig: Komið að endalokum Kalífadæmisins

Abu Bakr al-Baghdadi, eða Ibrahim Awad Ibrahim al-Badri al-Samarrai, stofnaði Íslamska ríkið í apríl 2013, en hann hafði þá leitt deild al-Qaeda í Írak frá árinu 2010. Eftir hernaðarsigra ISIS sumarið 2014 steig Baghdadi í pontu í Nour al-Din moskunni í Mosul og lýsti yfir stofnun kalífadæmis Íslamska ríkisins í Írak og Sýrlandi.

Síðan þá hefur hann verið hundeltur af hinum ýmsu yfirvöldum um heim allan. Reynist þessar fregnir réttar væru þær reiðarhögg fyrir vígamenn ISIS sem tapa yfirráðasvæðum sínum hratt í Írak og Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×