Viðskipti innlent

Bankarnir stíga á bremsuna í lánveitingum til hótelverkefna

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Gert er ráð fyrir að fjárfesting í hótelum á höfuðborgarsvæðinu muni nema um 46 milljörðum króna á næstu fjórum árum.                  Mun hótelherbergjum fjölga um tvö þúsund á sama tíma.
Gert er ráð fyrir að fjárfesting í hótelum á höfuðborgarsvæðinu muni nema um 46 milljörðum króna á næstu fjórum árum. Mun hótelherbergjum fjölga um tvö þúsund á sama tíma. vísir/eyþór
Vísbendingar eru um að bankarnir séu orðnir varfærnari en áður í lánveitingum til hótelverkefna. Þeir hafa hert kröfur um eigið fé, gera strangara áhættumat og leggja jafnframt mat á kostnaðinn sem felst í því að breyta hótelum í íbúðir áður en þeir taka ákvörðun um að lána fé til hótelverkefna. Almennt hafa þeir stigið á bremsuna, að sögn viðmælenda Markaðarins sem eru öllum hnútum kunnugir á hótelmarkaðinum.

„Þeir eru vandlátari en áður,“ nefnir framkvæmdastjóri úr verktakageiranum í samtali við Markaðinn. „Þeir lána ekki lengur í hvað sem er.“ Ekki er þó hægt að segja að bankarnir séu alfarið hættir að lána fé til hótela. Mörg hótelverkefni eru enda í pípunum um allt land, þó sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Traustar og rótgrónar hótelkeðjur með góðar tryggingar eiga ekki í erfiðleikum með að fá lánsfé, en aðra sögu má segja um minni fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á hótelmarkaðinum. Þá eru dæmi um að sex til tólf mánaða töf hafi orðið á stórum hótelframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að illa gengur að safna fjármagni.

Viðmælendur Markaðarins segja ekki aðeins bankana heldur jafnframt marga fjárfesta vera orðna tregari til þess að leggja hótelverkefnum til fé. Margir þeirra hafi áhyggjur af mögulegri offjárfestingu í hótelum á síðustu árum. Mikil gengisstyrking krónunnar, en gengi krónunnar hefur styrkst um 29 prósent á síðustu tveimur árum samkvæmt gengisvísitölu, og boðuð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna úr 11 prósentum í 22,5 bæti ekki úr skák.

Bankamaður, sem þekkir vel til útlána viðskiptabankanna til fyrirtækja, segir bankana ekki lengur spenna bogann hátt þegar komi að lánveitingum til hótelframkvæmda. Þeir séu sumir jafnvel farnir að draga upp dekkri sviðsmyndir en áður. Áður hafi versta sviðsmyndin verið óbreytt ástand í komu ferðamanna til landsins, en nú séu þeir jafnvel farnir að líta til afleiðinga þess ef ferðamönnum skyldi fækka. Áður en bankarnir ákveða að veita fé til hótelverkefna leggja þeir einnig mat á það með hve miklum tilkostnaði sé hægt að breyta viðkomandi hóteli í íbúðir, ef í harðbakkann slær. Ef kostnaðurinn er talinn vera of mikill, og verkefnið of áhættusamt, halda þeir að sér höndum.

„Þetta er bara heilbrigð skynsemi,“ segir viðmælandi Markaðarins úr verktakageiranum um aðgerðir bankanna. „Miðað við alla þessa gríðarlegu uppbyggingu sem hefur orðið í hótelbransanum þá væri eitthvað að ef bankarnir myndu ekki stíga á bremsuna.“ Annar viðmælandi talar um gullgrafarastemningu á hótelmarkaði og segir ekki koma á óvart að bankarnir stígi nú varlega til jarðar. Það væri „fullkomlega óábyrgt“ að gera það ekki.

"Ef hótelin gátu rekið sig fyrir uppsveifluna ætti rekstrargrundvöllurnn í dag að vera enn betri þó svo að það komi eitthvert bakslag í komur ferðamanna," segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum.
Mikill vöxtur útlána

Útlán bankanna til ferðaþjónustu hafa aukist umtalsvert undanfarin ár samfara aukinni fjárfestingu í þessari ört vaxandi atvinnugrein. Alls námu útlán til atvinnugreinarinnar rúmlega fjórtán prósentum af heildarútlánum viðskiptabankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, í fyrra og mældist vöxtur þeirra 27 prósent á milli ára. Taka skal fram að lán til hótela vega hvað þyngst í heildarlánveitingum bankanna til ferðaþjónustu.

Fram kom í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands frá því í apríl síðastliðnum að ferðaþjónustan væri nú þriðji stærsti atvinnuvegaflokkurinn í útlánasafni bankanna á eftir fasteignafélögum og sjávarútvegi. Nema útlán til greinarinnar um 8,5 prósentum af heildarútlánum viðskiptabankanna til viðskiptavina. Í skýrslunni var tekið fram að útlán beintengd ferðaþjónustunni vægju ekki mjög þungt í bókum bankanna. Þó gæti útlánaáhætta þeim tengd verið hlutfallslega nokkuð mikil. Taldi Már Guðmundsson seðlabankastjóri sérstaka ástæðu til að taka það fram á kynningarfundi í bankanum að miklum útlánavexti, líkt og í ferðaþjónustunni, fylgdi ávallt áhætta og því væri mikilvægt að fylgjast með henni.

Seðlabankinn hefur auk þess ítrekað bent á hættuna sem gæti stafað af samdrætti í komu ferðamanna til landsins. Í fjármálastöðugleikaskýrslu bankans frá því í október í fyrra kom fram að bakslag í komu ferðamanna gæti valdið útlánatapi í ferðaþjónustu og leitt til þess að eiginfjárhlutfall bankanna lækkaði um allt að fjögur prósentustig. Þó leiddi sviðsmyndagreining bankans í ljós að ólíklegt væri að bakslag í vexti ferðaþjónustu myndi að óbreyttu tefla stöðu bankanna í tvísýnu.

Ljóst er af tölum Seðlabanka Íslands að útlán viðskiptabankanna til ferðaþjónustunnar hafa vaxið mun hægar en komur erlendra ferðamanna hingað til lands. Í því sambandi verður þó að hafa í huga að uppbyggingin á hótelmarkaðinum hefur að einhverju leyti verið fjármögnuð utan bankakerfisins, af einstaka fagfjárfestasjóðum eða með stofnun samlagshlutafélaga um einstaka fjárfestingar. Eru lífeyrissjóðirnir í mörgum tilfellum kjölfestufjárfestar þar.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um að uppbygging hótela er fjármagnsfrek og hlýtur að krefjast töluverðrar lánafyrirgreiðslu. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hefur snörp lækkun orðið á hlutfalli eigin fjár í fjármögnun ferðaþjónustufyrirtækja, þar með talið hótela, á síðustu tveimur árum. Æ fleiri fyrirtæki sækjast nú eftir lánsfé en vísbendingar um það sjást enn fremur í tölum um hrein ný útlán bankanna, þar sem vöxturinn hefur verið hvað mestur í lánum til ferðaþjónustu.

Stíga varlega til jarðar

Seðlabankinn fylgist vel með stöðu mála og kallar ársfjórðungslega eftir upplýsingum frá bönkunum um útlán þeirra til ferðaþjónustu. Í svari Arion banka við fyrirspurn Markaðarins segir að í lok síðasta árs hafi hlutfall lána til aðila í ferðaþjónustu verið fimm prósent af lánasafni bankans, en hlutfallið var fjögur prósent í árslok 2015. Bankinn hefur ekki birt upplýsingar um þróunina það sem af er þessu ári en nefnir þó að almennt sé vöxtur í lánaeftirspurn á fyrirtækjamarkaði og þar sé ferðaþjónustan engin undantekning.

Íslandsbanki er aðeins umsvifameiri í lánveitingum til ferðaþjónustunnar, en um áramót fóru þrettán prósent af lánasafni bankans til ferðaþjónustunnar. Vega hótel þyngst í þeim lánveitingum. Var hlutfallið tólf prósent í lok fyrsta fjórðungs þessa árs.

Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka, segir bankann hafa lánað í farsæl verkefni í ferðaþjónustunni. Þar hafi verið mikill uppgangur á síðustu árum. „Eins og fram kom í nýlegri skýrslu OECD er mikill þrýstingur víða og því er mikilvægt að stíga varlega til jarðar í stórum framkvæmdum. Ferðaþjónustan er ein af undirstöðu­atvinnugreinum okkar og sjáum við tækifæri í greininni. En ljóst er að það þarf að horfa til langs tíma við slíkar ákvarðanir,“ segir hann.

Landsbankinn hefur ekki birt upplýsingar um útlán sín til ferðaþjónustu. Í svari bankans segir þó að sé tekið mið af þeim útlánareglum sem bankinn hefur sett sér séu útlán hans til ferðaþjónustu vel innan við viðmiðin sem þar er kveðið á um. Einnig er tekið fram í svarinu að almennt komi sterkt gengi krónunnar illa við útflutningsgreinar, þar með talið ferðaþjónustu. Það sé jafnframt gömul saga og ný að hátt gengi komi verr við skuldsett útflutningsfyrirtæki.

Mikil fjárfestingarþörf

Þrátt fyrir mikla uppbyggingu á hótelmarkaði síðustu ár telja greinendur að enn sé þörf á auknum fjárfestingum og fleiri hótelherbergjum. Í því sambandi er oft nefnt að fjölgun ferðamanna hafi verið töluvert umfram fjölgun hótelherbergja. Greiningardeild Íslandsbanka reiknar til dæmis með því að fjárfesting í hótelum á höfuðborgarsvæðinu verði tæplega 46 milljarðar króna á næstu fjórum árum og að hótelherbergjum muni fjölga um rúmlega tvö þúsund á sama tíma.

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, segir að fjöldi erlendra ferðamanna á hvert hótelherbergi hafi aukist verulega undanfarin ár, samhliða auknum straumi ferðamanna hingað til lands, eftir að hafa legið á fremur þröngu bili á árunum 2003 til 2010. „Á þann mælikvarða hefur byggst upp á síðustu árum þörf fyrir aukið gistirými og eru núverandi áform um aukna hóteluppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu því ekki byggðar á einhverri ofurbjartsýni,“ segir hann.

Fjöldi erlendra ferðamanna á hvert herbergi á höfuðborgarsvæðinu var á bilinu 161 til 182 frá árinu 2003 til 2010. Á síðasta ári var fjöldinn 390. Meðalfjöldi hótelherbergja á síðasta ári var um 4.500 á höfuðborgarsvæðinu og jókst um 700 herbergi frá fyrra ári.

Ólíklegt að ferðamönnum fækki

„Þó svo að öll áform um hóteluppbyggingu gangi eftir á næstu árum verður hlutfallið engu að síður áfram sögulega hátt. Vissulega er ekki hægt að útiloka einhverja fækkun ferðamanna á næstu árum en ferðamönnum þyrfti að fækka um helming til að hlutfallið færi aftur niður á það stig sem var fyrir uppsveifluna. Það tel ég vera mjög ólíklegt enda hafa erlendir ferðamenn brugðist við verulega hækkandi verði á íslenskri ferðaþjónustu í erlendri mynt á undanförnum misserum með því að draga úr dvalar­lengd sinni fremur en að hætta við för til Íslands,“ nefnir hann og bætir við:

„Miðað við þennan mælikvarða ætti arðsemin, að öðru óbreyttu, að vera töluvert betri í dag heldur en hún var fyrir ferðamannauppsveifluna. Ég myndi því ekki hafa sérstakar áhyggjur af því að við séum að byggja of mikið. Við höfum meira borð fyrir báru núna. Ef hótelin gátu rekið sig fyrir uppsveifluna ætti rekstrargrundvöllurinn í dag að vera enn betri þó svo að það komi eitthvert bakslag í komu ferðamanna.“

Gústaf segir staðsetningu hótelfjárfestinga skipta miklu máli. Herbergjanýtingin sé töluvert betri á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum en annars staðar á landinu. Arðsemismöguleikarnir séu því meiri þar en á til dæmis Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum. „Dvalar­lengd ferðamanna hefur verið að dragast saman á síðustu misserum, meðal annars vegna styrkingar krónunnar. Styttri dvöl gefur síður svigrúm til þess að fara út fyrir höfuðborgarsvæðið og ég held því að nýfjárfesting í hótelum úti á landi sé í töluvert meiri hættu en verkefni hér á höfuðborgarsvæðinu.“

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×