Innlent

Búið er að slökkva eldinn í Sandgerði

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Slökkvilið er á vettvangi að slökkva eldinn.
Slökkvilið er á vettvangi að slökkva eldinn. vísir/jói k.
Eldur kviknaði í gamalli verbúð að Strandgötu 14 í Sandgerði nú í kvöld. Húsið er nýtt sem íbúðarhúsnæði. Eldurinn var kveiktur utandyra og hefur nú borist í klæðningu hússins. Íbúar eru í öruggum höndum.

Samkvæmt Sigurði Skarphéðinssyni, varaslökkvistjóra Brunavarna á Suðurnesjum, er verið að kalla út fleira lið til aðstoðar og eru slökkviliðsmenn í þessum skrifuðu orðum á leiðinni á svæðið.

Ráðist verður í það að fjarlægja klæðningu hússins. Sigurður telur að um íkveikju í rusli hafi verið að ræða en rannsókn á málinu sé ekki hafin.

Ekki er vitað um skemmdir að svo stöddu. Fréttin verður uppfærð.



Búið að slökkva eldinn

„Betur fór en á horfðist,“ segir Ólafur Jónsson, verkefnastjóri Brunavarna á Suðurnesjum, sem segir að tekist hafi að slökkva allan eld. Slökkviliðið sé í þessum töluðu orðum að tryggja vettvang.



Ólafur telur að það hafi sennilega kviknað í sorpi fyrir utan húsnæðið. Eldurinn hafi breiðst út og í kjölfarið kviknað í klæðningu utanhúss. Hann segir að slökkviliðið hafi þurfti að rífa töluvert af þaki og klæðningu.

Ólafur segir að það hafi gengið vel að rýma húsnæðið og ennfremur að engum hafi orðið meint af.

Uppfært kl. 21:30




Fleiri fréttir

Sjá meira


×